„Á að hengja bakara fyrir smið“

Aflanum landað. Mynd úr safni.
Aflanum landað. Mynd úr safni. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Ekki er eðlilegt að notast sé við tveggja ára gamlar upplýsingar þegar álagning veiðigjalda er reiknuð, og að í útreikningunum séu í einum potti afkoma landvinnslu, frystitogara, uppsjávarskipa, ísfisktogara, báta og smábáta.

Þetta er niðurstaða aðalfundar Eldingar, félags smábátaeigenda í Ísafjarðarsýslum, sem haldinn var á Ísafirði í lok september. Veiðigjöldin voru þar rædd af miklum þunga, að því er fram kemur á vef Landssambands smábátaeigenda, og var krafa fundarins að afkoma smábáta yrði reiknuð sér.

„Sannast alveg kristaltært“

Var að lokum samþykkt eftirfarandi ályktun:

„Aðalfundur Eldingar mótmælir álagningu veiðigjalda eins og þau eru lögð á í dag. Það er ekki eðlilegt að notaðar séu tveggja ára tölur við útreikninga á gjaldinu. Inn í útreikningana eru sett í einn pott afkoma landvinnslu, frystitogara, uppsjávarskipa, ísfiskstogara, báta og smábáta. Það er krafa fundarinns að afkoma smábáta verði reiknuð sér.

Það getur ekki talist eðlilegt, eins og staðan er í dag, með mjög lágu fiskverði, sem ætti að koma landvinnslunni vel að þá hækki veiðigjald á smábáta. Í þessari gjaldtöku sannast alveg kristaltært að það á að hengja bakara fyrir smið.“

Að auki var samþykkt krafa um að hluti veiðigjaldanna verði eftir í þeirri höfn þar sem fiskinum er landað.

Stjórn Eldingar var endurkjörin en hana skipa þeir Ketill Elíasson, formaður, Kristján Andri Guðjónsson, Þórður Sigurvinsson, Karl Kjartansson og Páll Björnsson.

mbl.is