„Bæjarstjórn Akureyrar leggur áherslu á að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram miðstöð innanlandsflugs og sjúkraflugs fyrir landið allt, þar til jafngóð eða betri lausn finnst.“
Þannig hljóðar upphaf bókunar sem samþykkt var á síðasta fundi bæjarstjórnar Akureyrar með 11 samhljóða atkvæðum.
Bæjarstjórnin hefur oft ályktað um málið en nú skorar hún á stjórnvöld og ekki síst tilvonandi þingmenn að beita sér áfram í þessu máli og finna lausn til frambúðar. Í bókuninni segir að á undangengnum vikum hafi komið fram að það sé langtímaverkefni að finna jafngóða eða betri lausn en flugvöll í Vatnsmýri og það geti tekið tugi ára.