„Við höfum varað við þessu“

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Mér sýn­ist fljótt á litið að þessi skýrsla styðji það sem við höf­um sagt og vöruðum við fyr­ir rúm­lega ári síðan,“ seg­ir Heiðrún Lind Marteins­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi, í sam­tali við mbl.is. 

Tekj­ur í sjáv­ar­út­vegi dróg­ust sam­an um 25 millj­arða króna árið 2016, eða um níu pró­sent. All­ar lík­ur eru á að af­koma fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi versni enn nokkuð á yf­ir­stand­andi rekstr­ar­ári. Þetta kem­ur fram í sam­an­tekt Deloitte á rekstri sjáv­ar­út­vegs­fé­laga, sem gerð var að beiðni at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­is­ins.

Hún seg­ir að SFS hafi talað um að styrk­ing krónu myndi leiða til þess að veru­lega drægi sam­an í sjáv­ar­út­vegi. „Við bent­um meðal ann­ars á að staðan gæti orðið þannig að EBITDA í sjáv­ar­út­vegi yrði áþekk því sem hún var árin 2008-2009 þegar allt var í járn­um í hrun­inu,“ seg­ir Heiðrún og bæt­ir við þessu til stuðnings að EBITDA í sjáv­ar­út­vegi árið 2016 hafi verið lægri en hún var árið 2008.

Mest­ar áhyggj­ur af minnstu fyr­ir­tækj­un­um

Hún tel­ur lík­legra en ekki að tekj­urn­ar drag­ist meira sam­an með sama áfram­haldi. „Við erum ekki að sjá verðhækk­an­ir á mörkuðum og það er ólík­legt að við sjá­um mikl­ar breyt­ing­ar á gengi krónu. Laun hafa jafn­framt hækkað veru­lega í landi. Allt þetta leggst á eitt og leiðir til þess­ar­ar niður­stöðu.“

Heiðrún seg­ir að áhrifa­vald­ar í þessu sam­hengi séu tveir; fyr­ir­tæk­in í sjáv­ar­út­vegi og stjórn­völd. Fyr­ir­tæk­in þurfi að tak­ast á við þess­ar áskor­an­ir og lík­lega þurfi að hagræða í rekstr­in­um.

„Sá já­kvæði punkt­ur er þó í stöðunni að sjáv­ar­út­veg­ur er að öll­um lík­ind­um bet­ur í stakk bú­inn til að tak­ast á við dýpri dali en áður vegna góðs geng­is síðustu ára, lækk­un­ar skulda og fjár­fest­inga í grein­inni,“ seg­ir Heiðrún en hún bend­ir þó á að mik­ill fjöldi aðila starfi í sjáv­ar­út­vegi og rekstr­ar­leg staða þeirra sé mjög mis­jöfn.

„Ég hef veru­lega áhyggj­ur af stöðunni hjá þeim aðilum sem, þrátt fyr­ir góð skil­yrði liðinna ára, hafa ekki náð að byggja upp nægi­lega sterka fjár­hags­lega stöðu til að tak­ast á við erfitt ár­ferði,“ seg­ir Heiðrún.

„Stjórn­völd verða líka að gera það sem þau geta til að tryggja þessa grunnstoð at­vinnu­lífs og að hér sé góður jarðveg­ur fyr­ir rekst­ur þess­ara fyr­ir­tækja, að hann sé hag­felld­ur og þau fái þrif­ist, þannig að ábat­inn verði sam­fé­lags­ins alls. Í því sam­hengi þurf­um við meðal ann­ars að horfa til gjald­tök­unn­ar; að hún sé bæði hóf­leg og sann­gjörn.“

mbl.is