„Líklega aldrei staðið sterkar“

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

Sjáv­ar­út­veg­ur á Íslandi hef­ur lík­lega aldrei staðið styrk­ari fót­um en nú, og Íslend­ing­ar eru í far­ar­broddi hvað varðar sjálf­bæra nýt­ingu auðlinda sjáv­ar­út­vegs. Þetta kom fram í máli Bjarna Bene­dikts­son­ar for­sæt­is­ráðherra á Sjáv­ar­út­vegs­deg­in­um, ráðstefnu á veg­um Deloitte, SA og SFS sem lauk nú fyr­ir há­degi.

„Það er mjög merki­legt að hugsa til þess hversu langt við höf­um náð á und­an­förn­um árum,“ sagði Bjarni og bætti við að hann vildi hrósa fólki sem starfað hefði í at­vinnu­grein­inni í lengri tíma, og þannig farið í gegn­um góðu árin en einnig þau erfiðu.

„Og nú get­um við litið yfir sviðið og sagt, lík­lega höf­um við aldrei staðið sterk­ar.“

Ósjald­an í kosn­inga­bar­áttu þessi árin

Bjarni sagðist sí­fellt finna fyr­ir áhuga er­lend­is á góðu gengi sjáv­ar­út­vegs hér á landi.

„Ekk­ert annað fisk­veiðistjórn­un­ar­kerfi hef­ur heppn­ast svo vel að menn telji að það sé til­efni að setja á álög­ur,“ sagði hann og bætti við að víða væri því frek­ar öf­ugt farið.

Um­hverfið hér á landi sagði hann hafa stuðlað að mik­illi ný­sköp­un og nefndi fjölda nýrra skipa sem keypt hafa verið hingað til lands síðustu miss­eri.

„Maður fer ósjald­an í kosn­inga­bar­áttu þessi árin,“ sagði hann svo og upp­skar hlát­ur ráðstefnu­gesta í Hörpu.

„En í hvert sinn sem ég heim­sæki fisk­vinnsl­ur þá sé ég nýja tækni. Svo er gam­an að sjá þegar maður kem­ur um borð að skip­in eru fyllt af tækj­um og tól­um sem byggja líka á ís­lensku hug­viti,“ bætti hann við og benti á að um­rædd þróun og fjár­fest­ing­ar væru að skila bætt­um lífs­kjör­um á Íslandi.

Sam­hljóm­ur um auðlinda­ákvæði

„Það er fagnaðarefni að fyr­ir­tæk­in geti farið í mikl­ar fjár­fest­ing­ar sem þess­ar. Þær eru ein helsta for­senda þess að við náum sí­fellt meiri verðmæt­um úr auðlind­inni.“

Vísaði hann til þess að fyr­ir þrjá­tíu árum hafi ís­lenski fisk­veiðiflot­inn veitt tvö­falt meira en hann ger­ir í dag. Samt sem áður fá­ist meiri pen­ing­ur fyr­ir heild­arafl­ann.

At­hygli vakti að Bjarni sagðist finna fyr­ir sam­hljómi á milli flokk­anna um inn­leiðingu auðlinda­ákvæðis í stjórn­ar­skrá. Sagðist hann telja að ágrein­ing­ur um önn­ur atriði sem lúta að sjáv­ar­út­vegi stæði þó í vegi fyr­ir slíku ákvæði sem stend­ur.

mbl.is