Sænsk yfirvöld gagnrýna harkalega ákvörðun íranskra dómstóla um að dæma prófessor við Karolinska Institute til dauða. Dauðadómurinn var staðfestur í gær en prófessorinn, Ahmadreza Djalali, hefur verið í haldi síðan í apríl í fyrra.
Djalali, sem er með íranskan ríkisborgararétt en dvalarleyfi til langs tíma í Svíþjóð, var handtekinn í Teheran og hann sakaður um njósnir og andstöðu við guð þegar tók þátt í ráðstefnu í borginni vorið 2016.
Hann hefur búið lengi í Svíþjóð ásamt eiginkonu og tveimur börnum. Sérgrein hans er lækningar á hamfaratímum og stundar hann rannsóknir sínar við Karolinska-stofnunina í Stokkhólmi.
Á laugardaginn fékk eiginkona hans tilkynningu um að hann hafi verið dæmdur til dauða en dómsmálaráðuneytið staðfesti það í gær.
Saksóknari í Teheran sakar Djalali um að hafa veitt leyniþjónustu Ísraela, Mossad, upplýsingar um hernaðarmannvirki og kjarnorkuver í Íran gegn greiðslu, bæði í formi peninga og búseturéttar í Svíþjóð.
„Eiginmaður minn trúir því ekki að þetta sé að gerast. Hann er í áfalli,“ segir Vida Mehrannia í viðtali við TT-fréttastofuna.
Utanríkisráðherra Svíþjóðar, Margot Wallström, segir að ríkisstjórnin muni ekki tjá sig um ásakanirnar en utanríkisráðuneytið hafi komið mótmælum sínum á framfæri við írönsk yfirvöld.
„Utanríkisráðuneytið vill leggja áherslu á að Svíþjóð fordæmir alltaf dauðarefsingar. Við munum halda áfram vinnu okkar sem byggir á þeim upplýsingum sem við höfum undir höndum. Við munum strax ræða þetta við fulltrúa Íran, jafnvel á æðstu stöðum,“ segir Lina Edimark, talsmaður ráðuneytisins.
Í fyrra voru að minnsta kosti 567 teknir af lífi í Íran samkvæmt upplýsingum frá Amnesty International. Ekki er hins vegar öruggt að þeir séu ekki fleiri því stjórnvöld í Íran veita ekki upplýsingar um allar slíkar refsingar.
<strong><a href="http://www.mbl.is/frettir/erlent/2017/08/22/daudarefsingu_yfir_hofdi_ser/" target="_blank">Frétt mbl.is: Á dauðarefsingu yfir höfði sér</a></strong>
<a href="https://www.dn.se/arkiv/nyheter/sverige-fordomer-dodsdom-mot-forskare-i-iran/" target="_blank"><strong>Frétt DN. se</strong></a>