Landssamband smábátaeigenda fordæmir þá dæmalausu umgengni um sjávarauðlindina sem fram kom í fréttaþættinum Kveik sem sýndur var í RÚV á þriðjudag.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá sambandinu.
Segist sambandið brýna fyrir sjómönnum, fiskvinnsluaðilum og öllum þeim sem starfi við sjávarútveg að vanda sig í allri umgengni um sameiginlega auðlind þjóðarinnar.
Bent er á að LS hafi þrýst á fyrrverandi sjávarútvegsráðherra um nauðsyn þess að breyta reglum um vigtun í byrjun árs 2014.
„Í umræðu á Alþingi 22. janúar það ár staðfesti hann að málið væri komið inn á þingmálalista yfirstandandi vorþings. Engar raunhæfar skýringar hafa verið gefnar [á því] hvers vegna frumvarp kom ekki fram. Nægur þingmeirihluti var að baki ríkisstjórn á þessum tíma og ólíklegt að málefnið hefði mætt andstöðu þingsins,“ segir í tilkynningunni.
„Á öllum stigum þessa máls hefur LS lýst stuðningi við hugmyndir stjórnvalda um breytingar á reglum um vigtun. Þau þrjú ár sem liðin eru án aðgerða hafa leitt til óheilbrigðrar samkeppnisstöðu milli fyrirtækja og skaðað orðspor íslensks sjávarútvegs. Enn fremur hefur aðgerðaleysið haft áhrif á kjarasamninga sjómanna.
Landssamband smábátaeigenda ætlar fjórða valdinu að draga fram í dagsljósið hver ber ábyrgð í þessu grafalvarlega máli sem á rætur sínar í slöku regluverki og ónógu eftirliti stofnunar sem stjórnvöld gerðu nánast óstarfhæfa með vanhugsaðri ákvörðun um staðsetningu.“