Ónýttar aflaheimildir á við brottkast

Frá Höfn í Hornafirði.
Frá Höfn í Hornafirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Á hverju ári brenna inni aflaheimildir í ufsa innan fiskveiðikerfisins, svo skiptir þúsundum tonna. Þetta er fullyrt í tilkynningu frá smábátafélaginu Hrollaugi á Hornafirði.

Félagið fordæmir allar gerðir brottkasts á sjávarafla við fiskveiðar í kringum landið, „hvort sem það er í formi þess að veiddum fiski sé kastað fyrir borð á bátum sem stunda fiskveiðar í kringum landið eða í formi þess að aflaráðgjöf á ufsa er látin brenna inni svo skipti þúsundum tonna á hverju ári sem er ekki síður alvarlegt brottkast.“

Ufsi vannýtt tegund á Íslandsmiðum

„Á hverju ári brenna inni aflaheimildir í ufsa innan fiskveiðikerfisins svo skiptir þúsundum tonna og hefur gert í mörg ár sem enginn fær að nýta. Á sama tíma er strandveiðikerfið svelt og menn hafa þurft að stöðva báta sína eftir örfáa róðra í mánuði,“ segir í tilkynningunni.

„Það er staðreynd að ufsi er vanýtt tegund á Íslandsmiðum og látið viðgangast af ríkinu ár frá ári sem er í okkar augum alvarlegt brottkast á atvinnutækifærum og verðmætasköpun þjóðarinnar  og því ætti allur meðafli þorsks innan strandveiðikerfisins að vera með öllu frjáls því nóg er óveitt af ufsa á hverju ári.. Strandveiðikerfið þarf á þessu að halda núna strax.“

Þá segir að í ljósi nýjustu frétta virðist sem miklum sjávarafla sé kastað fyrir borð skipa í kringum landið.

„Slík umgengni um sjávarútvegsauðlindina er ólíðandi og skapar skekkju á því aflamagni sem veitt er í kringum landið og sóar verðmætum þjóðarinnar, á meðan sum kerfi eins og strandveiðikerfið eru svelt svo um munar af aflaheimildum.“

Allur meðafli þorsks verði frjáls

Félagið skorar í framhaldinu á stjórnvöld, „að leyfa strandveiðar fjóra daga í viku í fjórar vikur á ári í fjóra mánuði á ári án stöðvunar veiða og að allur meðafli þorsks við strandveiðar verði algjörlega frjáls innan strandveiðikerfisins án nokkurra skorða. Það er klárlega svigrúm til þess.“

mbl.is