Áhöfn TF-SIF, flugvélar Landhelgisgæslunnar, tók myndir af nýjum ísfisktogara HB Granda, Viðey RE-50, þar sem hann sigldi vestur um Miðjarðarhaf á laugardag.
Áhöfnin var í hefðbundinni eftirlitsferð fyrir Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu, Frontex, þegar flogið var yfir togarann.
Átta eru í áhöfninni sem sér um að sigla skipinu heim og er Jóhannes E. Eiríksson skipstjóri. Skipverjarnir kváðust mjög ánægðir með nýja togarann og voru hressir á heimleiðinni, að því er segir á vef Landhelgisgæslunnar.
Gert er ráð fyrir að Viðey komi heim skömmu fyrir jól og verður efnt til formlegrar móttöku í Reykjavíkurhöfn 22. desember af því tilefni.
Togarinn er sá þriðji og síðasti í röð skipa sem útgerðin fær frá tyrknesku skipasmíðastöðinni, en þegar hafa Engey RE og Akurey AK komið til landsins á árinu.