„Þetta er náttúrlega sorglegt“

Axel segir Landssambandið munu kalla eftir svörum frá Fiskistofu.
Axel segir Landssambandið munu kalla eftir svörum frá Fiskistofu. mbl.is/Ófeigur

Til­laga starfs­hóps um niður­fell­ingu stærðar- og vélaraflstak­mark­ana skipa við veiðar hef­ur vakið hörð viðbrögð. Lands­sam­band smá­báta­eig­enda seg­ir að vegið sé að framtíð smá­báta­út­gerðar.

Sam­bandið hef­ur sent at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­inu bréf með at­huga­semd­um við til­lögu starfs­hóps ráðuneyt­is­ins, sem er á þá leið að all­ar nú­gild­andi stærðar- og vélaraflstak­mark­an­ir skipa við veiðar verði felld­ar úr gildi.

Í bréf­inu seg­ir að þessi niðurstaða hóps­ins sé sam­band­inu mik­il von­brigði. Tel­ur sam­bandið til­lög­una vega að framtíð smá­báta­út­gerðar á land­inu og veiðirétti þeirra.

„Hóp­ur­inn hef­ur með til­lögu sinni ákveðið að skeyta engu um þær regl­ur sem í gildi eru og verið einn af horn­stein­um að út­gerð smá­báta. Að skýr­ar regl­ur gildi um veiðar á grunn­slóð, hvers kon­ar skip geti sótt á hefðbund­in veiðisvæði smá­báta. Sátt hef­ur ríkt um lög um veiðar í fisk­veiðiland­helgi Íslands þar sem haft er til hliðsjón­ar að stærð báta tak­marki sókn þeirra á veiðislóðir fjær landi.“

„Verið að skjóta okk­ur niður“

Axel Helga­son, formaður LS, seg­ir til­lög­una ekki í sam­ræmi við mark­mið nú­gild­andi laga.

„Það helsta sem við hnjót­um um er að starfs­hóp­ur­inn legg­ur til að all­ar nú­gild­andi stærðar- og vél­ar­tak­mark­an­ir verði felld­ar úr gildi. Í því felst ekk­ert annað en meiri hátt­ar breyt­ing á okk­ar um­hverfi, og er í raun á skjön við mark­mið fyrstu grein­ar laga um stjórn fisk­veiða,“ seg­ir Axel í sam­tali við 200 míl­ur. Sam­kvæmt um­ræddri grein er mark­mið lag­anna að vernd­un og hag­kvæmri nýt­ingu nytja­stofna „og tryggja með því trausta at­vinnu og byggð í land­inu.“

„Það að halda þessu út­gerðarformi við lýði er í hag byggðanna. Að þetta sé ekki allt á hendi stærstu aðil­anna,“ bæt­ir hann við.

„Og síðan seg­ir Fiski­stofa að það að heim­ila stærri bát­um að koma að veiðum muni „að mati Fiski­stofu leiða af sér bætta um­gengni um auðlind­ina og bætta aflameðferð.“ Það eru eng­in rök fyr­ir þessu og það er bara verið að skjóta okk­ur niður.“

At­vinna nokk­urra þúsunda

Aðspurður seg­ir hann Lands­sam­bandið munu kalla eft­ir svör­um frá Fiski­stofu vegna þessa.

„Við mun­um krefjast þess að fá að vita til hvers þeir eru að vísa þarna. Hvernig um­gengni um auðlind­ina sjá­um við á stóru skip­un­um? Hvaða sam­hengi er þar við stærð skips­ins og fjar­lægð frá landi? Þetta er nátt­úr­lega sorg­legt.“

Þá bend­ir hann á að Haf­rann­sókna­stofn­un nefni að á nokkr­um stöðum sé ljóst að eng­in fiski­fræðileg rök séu fyr­ir stærðar­tak­mörk­un­um.

„Það má vel vera en fisk­veiðistjórn­un­ar­kerfið snýst ekki bara um fiski­fræðileg rök. Þetta er at­vinna nokk­urra þúsunda manna og verið er að viðhalda henni til að stuðla að byggð úti um landið.“

Þá seg­ir hann tak­mark­an­irn­ar ekki held­ur vera aðeins til að vernda ungviði fiska og sjáv­ar­botn­inn.

„Þetta snýst um að það far­svið sem smá­bát­ar hafa sé að hluta til verndað fyr­ir þess­um stór­virku veiðarfær­um. Drag­nóta­bát­ar geta núna komið inn í botn­inn á Skagaf­irði og hreinsað upp fisk­inn á einni og hálfri viku. Eft­ir það er eng­in línu­veiði í Skagaf­irði, all­an vet­ur­inn. Í staðinn fyr­ir að heima­menn gætu veitt þar jafnt og þétt á sama tíma með val­kvæðara veiðarfæri sem hrófl­ar ekki við botn­in­um.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: