Félagsmenn Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur greiða nú atkvæði um hvort gengið skuli út úr Sjómannasambandi Íslands og Alþýðusambandinu. Stendur atkvæðagreiðslan yfir til klukkan 20 í kvöld. Félagið telur um 700 félaga og er það stærsta innan Sjómannasambandsins að sögn formannsins, Einars Hannesar Harðarsonar.
„Við vorum með sextíu til sjötíu manna fund í gær og mér heyrist almennt á okkar félögum að þeir vilji út úr sambandinu,“ segir Einar, sem telur yfirgnæfandi líkur á að tillagan verði samþykkt.
Þó stjórnin hafi ekki lagt tillöguna fram, heldur aðrir félagsmenn, segir hann að innan hennar séu menn sammála um að vera félagsins innan Sjómannasambandsins og Alþýðusambandsins sé óþörf.
„Einkum og sér í lagi ASÍ, en lögin eru svo einkennileg að ef þú ætlar út úr ASÍ þá verðurðu að fara út úr Sjómannasambandinu líka.“
Ef svo fer sem horfir segir Einar þetta ekki munu hafa nein áhrif á kjarasamninga félagsmanna, en félagið samdi sérstaklega um kjör við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi við lok verkfallsins fyrr á árinu.
„Við höfum haft samningsumboðið hjá okkur og það breytist ekki.“
Einar nefnir að félagsmenn séu meðal annars óánægðir með þá ákvörðun ASÍ að synja beiðni félagsins um greiðslur úr verkfallssjóði í byrjun ársins. Segir hann að svo virðist sem synjunin sé byggð á reglum sem sniðnar hafi verið til að komast hjá því að borga sjómönnum.
Forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, sagði aftur á móti í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins í dag að eðlilegar ástæður hefðu legið að baki synjuninni. Benti hann á að komið hefði í ljós að Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur endurgreiði hluta iðgjalda til sinna félagsmanna á ári hverju.
Það skjóti skökku við að endurgreiða iðgjöld félagsmanna en á sama tíma fara fram á það við ASÍ að standa straum af aðgerðum í kjarabaráttu.
Í samtali við 200 mílur segir Einar að rökstuðningur Gylfa sé einkennilegur.
„Það er skrýtið að Gylfi setji út á það, þar sem við borgum skatta til ASÍ – ekki af iðgjöldunum heldur af því eina prósenti af launum félagsmanna sem rennur til okkar. Endurgreiðsla iðgjaldanna hefur því engin áhrif á greiðslur okkar til ASÍ. Það er athyglisvert að forseti ASÍ reyni að skýla sér á bak við þá staðreynd. Þetta er mjög furðulegt útspil.“
Hann segir Gylfa hrökkva í vörn í þessu eins og fleiri málum.
„Gylfi segir bara það sem hann heldur að henti, enda hefur hann aldrei hjálpað sjómönnum í einu eða neinu. Það er mín skoðun.“
Um 700 félagsmenn eru innan veggja SVG og segir Einar að félagið sé það stærsta innan Sjómannasambandsins.
„Við erum langstærsta sjómannafélagið og örugglega einn þriðji eða meira af sambandinu. Þannig þetta yrði áfall fyrir þá, ef við förum út.“
Ekki náðist í Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, við gerð fréttarinnar.