„Fyrst og fremst eru þetta dapurleg tíðindi,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, um niðurstöðu atkvæðagreiðslu félagsmanna Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur þar sem yfirgnæfandi meirihluti greiddi atkvæði með útgöngu úr SSÍ og ASÍ.
„Eftir því sem mér skilst þá vilja þeir vera innan okkar vébanda, en á meðan þeir vilja ekki vera innan ASÍ þá er það ekki hægt. Þannig eru lögin,“ segir Valmundur í samtali við 200 mílur.
SVG hefur verið stærsta aðildarfélag Sjómannasambandsins en félagsmenn SVG eru um 25% af félagatali þess. Ljóst er að stórt skarð hefur verið höggvið í sambandið.