Aðstoðarlögreglustjóri lét lífið og sex til viðbótar særðust, þar á meðal fjórir lögreglufulltrúar, þegar lögreglan hugðist svara útkalli í úthverfi nærri Denver í Colorado-ríki í dag.
Útkallið var vegna óláta á heimili í bænum Highlands Ranch, um 20 kílómetrum sunnan við Denver, að því er lögreglan segir frá. Sá grunaði var skotinn til bana.
Hinir særðu hafa verið fluttir á tvö nærliggjandi sjúkrahús og eru þrír þeirra ekki með lífshættulega áverka.
Skotum var hleypt af út úr byggingunni snemma morguns að staðartíma og fór lögregla á staðinn með þungvopnaða sérsveit auk sprengjusveitarbíls, þó ekki sé vitað til þess að sprengiefni hafi fundist á staðnum.
Fjöldi þeirra lögreglumanna sem urðu fyrir skotum virðist vera með þeim hæstu síðan fimm lögreglufulltrúar voru skotnir til bana og fleiri særðir í Dallas í Texas fyrir rúmu ári.