Níu létust í mótmælum í Íran í gærkvöldi og nótt en mótmælendur reyndu að komast inn á lögreglustöð í bænum Qahderijan. Undanfarna fimm daga hafa fjölmargir tekið þátt í mótmælum í Íran en þau beinast einkum að stjórnvöldum vegna mikilla verðhækkana á vörum undanfarið. Alls hefur 21 látist í mótmælunum.
Forseti Írans, Hassan Rouhani, segir að gripið verði til aðgerða gegn uppreisnarseggjum og lögbrjótum en ummæli hans hafa haft lítil áhrif á þá sem taka þátt í mótmælunum, þeim fjölmennustu frá árinu 2009 í Íran.
Ali Shamkhani, yfirmaður þjóðaröryggisráðs Írans, segir mótmælin vera stærstu áskorunina sem stjórnvöld hafi staðið frammi fyrir frá árinu 2009 og segir mótmælin vera staðgöngustríð (proxy war) gagnvart írönsku þjóðinni. Hann segir í viðtali við fjölmiðla í Íran að myllumerki og skilaboð um ástandið í Íran komi frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Sádi-Arabíu. Ekki frá Íran.
Um 450 manns hafa verið handteknir í Teheran, höfuðborg Írans, undanfarna þrjá daga vegna mótmælanna, þar af voru 200 handteknir á laugardag.