Enginn stórstormur við Rimaskóla

Helgi Árnason, skólastjóri Rimaskóla.
Helgi Árnason, skólastjóri Rimaskóla.

„Það er enginn stórstormur við skólann og flest börnin eru mætt,“ segir Helgi Árnason, skólastjóri Rimaskóla í Grafarvogi í Reykjavík. Í gærkvöldi sendi hann foreldrum barna í 1.-5. bekk skilaboð þar sem þeir voru hvattir til að fylgja börnum sínum í skólann. „Mér sýnist að foreldrar séu almennt að gera það og passa vel upp á að börnin þeirra skili sér alveg inn fyrir þröskuldinn í skólanum.“

Hann segir að svo virðist sem flestir nemendur séu mættir í skólann. Ekki hafi reynst þörf á því að láta börnin vera heima vegna veðurs. „Það er rok hér á milli húsa í hverfinu en við sjálfan skólann er þokkalega skjólsamt, enginn stórstormur,“ segir Helgi. 

„Ég stend hérna í útidyrunum og er tilbúinn að grípa ef á þarf að halda en þess hefur ekki þurft,“ segir Helgi á léttum nótum.

mbl.is