Farið að hvessa verulega

Veðurstofa Íslands

Þegar er orðið mjög hvasst í efri byggðum á höfuðborgarsvæðinu og er fólk beðið um að fylgjast vel með tilkynningum um skólastarf áður en börn eru send af stað í skóla. Einnig er mjög hvasst á leiðum til borgarinnar, t.d. á Kjalarnesi, Hellisheiði og Reykjanesbraut.

Staðan verður metin klukkan 6:30 varðandi skólastarf á höfuðborgarsvæðinu og mun mbl.is fylgjast grannt með málum og birta frétt um leið og upplýsingar berast.

Suðaustanhvassviðri eða -stormur með talsverðri eða mikilli rigningu suðaustanlands í dag. Því víða slæmt ferðaveður og hálka á vegum. Einkum er búist við snörpum hviðum á Reykjanesi, undir Eyjafjöllum og við fjöll við sunnanverðan Faxaflóa, segir í athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Appelsínugul viðvörun gildir um hluta höfuðborgarsvæðisins og gul víða annars staðar.

„Í dag gengur á með suðaustanstormi og talsverðri rigningu, jafnvel úrhelli suðaustan til. Heldur er þó hægara og úrkomuminna norðaustanlands, en yfirleitt mildar hitatölur. Óveðrinu veldur skilakerfi ættað frá krappri og djúpri lægð, sem hreyfist norðvestur yfir Grænlandshaf.

Þegar lægðin nálgast Grænlandsströnd í nótt dregur talsvert úr vindi og á morgun blása fremur hægir vindar með úrkomu í minna lagi. 

Á fimmtudag er síðan von á næstu lægð sem gefur systurlægð sinni ekkert eftir með tilheyrandi stormi og votviðri. Veðurspá helgarinnar er því miður ekki mikið skárri, áfram hvassir vindar og úrkomusamt,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

mbl.is