Foreldrar eru hvattir til þess að fylgja börnum sínum í skóla á höfuðborgarsvæðinu í dag en samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði og Veðurstofunni er appelsínugul viðvörun í gildi.
Eftirfarandi viðvörun er í gildi:
„Veður getur seinkað ferðum nemenda til skóla. Skólar eru opnir, en mikilvægt er að foreldrar gæti þess að yngri börn fari ekki ein í skóla, þetta á sérstaklega við í efri byggðum og þar sem börn þurfa að fara yfir opin svæði á leið sinni í skóla.
Með yngri börn er hér átt við 12 ára og yngri,“ segir í tilkynningu sem gefin hefur verið út.
Nánari upplýsingar eru á Facebook-síðu slökkviliðs og lögreglu höfuðborgarsvæðisins bs.