Arðsemi dregist saman um þriðjung

Fiskveiðiflotinn í Reykjavíkurhöfn. Mynd úr safni.
Fiskveiðiflotinn í Reykjavíkurhöfn. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar

Vísbendingar eru um að veiðigjöldin séu farin að íþyngja mörgum litlum og meðalstórum sjávarútvegsfyrirtækjum. Þetta segir Jónas Gestur Jónasson, yfirmaður sjávarútvegshóps Deloitte, en rætt er við hann í Markaði, viðskiptablaði Fréttablaðsins í dag.

Bendir hann á að almennt sé EBITDA, þ.e. rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, að lækka mjög skarpt í sjávarútvegi.

„Þau fyrirtæki sem hafa verið fjárhagslega veikari virðast hafa verið að heltast úr lestinni undanfarin þrjú til fjögur ár og þau verið keypt eða tekin yfir af stærri fyrirtækjum. Það hefur orðið töluverð samþjöppun í greininni. Þróunin er öll í þá áttina,“ er haft eftir Jónasi.

Veiðigjöldin hraði hagræðingu

Daði Már Kristófersson, auðlindahagfræðingur við Háskóla Íslands, segir þá að því hærri sem veiðigjöldin séu, þeim mun meira hraði þau hagræðingu í greininni, enda leiði þau til þess að fyrirtæki sem geti ekki skapað verðmæti til þess að standa undir gjaldtökunni dragist aftur úr.

Segir enn fremur í umfjölluninni að arðsemi eigna í sjávarútvegi hafi dregist saman um þriðjung frá 2009 til 2016, á sama tíma og arðsemi í atvinnulífinu hafi aukist um nærri sjötíu prósent. Arðsemi sjávarútvegsfyrirtækja sé engu að síður talsvert betri en almennt í atvinnulífinu.

Morgunblaðið greindi frá því í gær að fyrstu þrjá mánuði fisk­veiðiárs­ins hefðu inn­heimt veiðigjöld verið á bil­inu frá 936 millj­ón­um og upp í 1.057 millj­ón­ir króna.

mbl.is