Borgarlínan er langtímaverkefni og enn á undirbúningsstigi segir Hrafnkell Á. Proppé, svæðisskipulagsstjóri hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem kynnti verkefnið og forsendur þess á fundi á vegum Hafnarfjarðarbæjar í dag.
Í samtali við mbl.is segir Hrafnkell að fundurinn hafi verið vel sóttur en með honum var Ólöf Kristjánsdóttir, samgönguverkfræðingur hjá Mannvit, sem kynnti niðurstöður greiningarvinnu fyrir leiðarval innan Hafnarfjarðar.
Verkefnið er sem stendur á undirbúningsstigi og ekki liggur fyrir hvenær framkvæmd hefst. „Eins og með öll svona stór verkefni þá í rauninni gerist ekkert fyrr en komið er tryggt fjármagn og enn sem komið er erum við að undirbúa okkur í þetta samtal sem sveitarfélögin eiga eftir að eiga við ríkið um það,“ segir Hrafnkell.
Hann segir þó engu að síður hægt að vinna markviss skref í áttina. „Þetta birtist ekki allt í einu einn daginn, heldur verður þetta til smám saman, í áföngum.“
Hafnarfjarðarbær sýndi beint frá fundinum á Facebook-síðu sinni og hér má sjá upptökuna: