Í lagi þótt einhver fyrirtæki fari á hausinn

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Til eru aðrar leiðir til að halda uppi byggðum í land­inu en að þvinga menn til að standa í út­gerð og at­vinnu­hátt­um sem bera sig kannski ekki leng­ur. Þetta sagði Logi Ein­ars­son, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, í umræðum á Alþingi í gær þar sem hann var spurður út í stefnu sína hvað varðar veiðigjöld í sjáv­ar­út­vegi.

Með veiðigjöld­in þá vilj­um við fyrst og fremst að þjóðin fái hærri af­gjöld af sam­eig­in­leg­um auðlind­um sín­um, hvort sem um er að ræða sjó eða orku eða annað slíkt. Auðvitað get­ur slíkt leitt til mik­ill­ar samþjöpp­un­ar,“ sagði Logi og benti á að til væru aðrar leiðir.

„Af hverju bjóðum við ekki út eitt­hvað af þess­um kvóta? Af hverju tök­um við ekki byggðakvót­ann og lát­um byggðirn­ar fá pen­ing­ana í staðinn fyr­ir að vera með þetta kerfi sem við erum með í dag og ger­um þeim kannski kleift að byggja upp á nýj­um at­vinnu­veg­um, ferðaþjón­ustu, ný­sköp­un og öðru slíku?“ spurði Logi.

Rauðmáluð skip Ísfélags Vestmannaeyja við bryggju á Þórshöfn. Mynd úr …
Rauðmáluð skip Ísfé­lags Vest­manna­eyja við bryggju á Þórs­höfn. Mynd úr safni. mbl.is/​Lín­ey

Allt í lagi þó eitt­hvað af fyr­ir­tækj­um fari á haus­inn?

Sagði hann að ótrú­legt væri „að hlusta á full­trúa frjáls­hyggj­unn­ar hérna“, og vísaði þar til Óla Björns Kára­son­ar, þing­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins og for­manns efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar Alþing­is, sem spurt hafði Loga í ræðu sinni þar á und­an um stefnu hans þegar kem­ur að veiðigjöld­um.

Bætti Logi við hvort út­gerðin ætti að lúta öðrum lög­mál­um en önn­ur starf­semi og tók sem dæmi verk­fræðistof­ur, rak­ara­stof­ur og nudd­stof­ur.

Er ekki allt í lagi þó að eitt­hvað af út­gerðarfyr­ir­tækj­un­um fari á haus­inn og við leit­um í hag­kvæm­asta rekst­ur­inn þannig að þjóðin fái á end­an­um af­gjaldið? Aðal­atriðið er að byggðunum blæði ekki. En ef hátt­virt­ur þingmaður get­ur full­vissað mig um að í nú­ver­andi kerfi hafi byggðunum ekki blætt, þá skal ég bara biðjast af­sök­un­ar.“

Óli Björn sagði ræðu loga merkilega.
Óli Björn sagði ræðu loga merki­lega. mbl.is/​RAX

Komi fyrst og fremst niður á byggðum

Að loknu svari Loga sté Óli Björn aft­ur í ræðustól:

„Herra for­seti. Þetta var merki­leg ræða. Ég skal full­yrða að það mun fyrst og fremst koma niður á byggðum, meðal ann­ars í kjör­dæmi hátt­virts þing­manns, ef hug­mynda­fræði hans og stefna þegar kem­ur að veiðigjöld­um nær fram að ganga,“ sagði Óli Björn.

„Það kem­ur ekk­ert á óvart að þingmaður­inn skuli tala með þess­um hætti þegar hug­mynda­fræði hans bygg­ir á því að ríkið sé að af­sala sér ein­hverj­um tekj­um þegar skatt­ar eru ekki hækkaðir meira en gert er eða þeir lækkaðir.Sá sem tal­ar með þeim hætti geng­ur út frá því að ríkið eigi í raun eigi allt sem ein­stak­ling­ur­inn afl­ar sér, launamaður­inn, vegna þess að það er ekki hægt að af­sala sér neinu því sem maður á ekki. Hug­mynda­fræðin bygg­ir á því að ríkið eigi í raun­inni allt sem ein­stak­ling­ur­inn afl­ar og fyr­ir­tæk­in afla. Þeirri hug­mynda­fræði er ég að berj­ast gegn. Ef það telst frjáls­hyggja er ég frjáls­hyggjumaður.“

Sam­fylk­ing­in talað fyr­ir hugs­an­legu upp­boði

Logi tók þá á ný til máls og full­yrti að veiðigjöld væru ekki skatt­ur.

„Þau eru gjald fyr­ir af­not af tak­markaðri auðlind. Ef það hef­ur farið fram hjá hátt­virt­um þing­manni þá hef­ur Sam­fylk­ing­in meira að segja talað fyr­ir ann­ars kon­ar gjald­töku sem er hugs­an­lega í formi upp­boðs sem leiðir til þess að menn bjóða vænt­an­lega ekki meira í hlut­inn en þeir ráða við að borga,“ sagði Logi.

„Í góðu ári fáum við mikl­ar tekj­ur og í slæmu ári minni tekj­ur þannig að grein­in geti alltaf borið þetta. Það er auðvitað skyn­sam­leg­ast þegar öllu er á botn­inn hvolft. Þannig ger­um við þetta í ýms­um öðrum at­vinnu­grein­um.“

Áður hafa 200 míl­ur greint frá erfiðleik­um smærri út­gerða að und­an­förnu, þar sem há álagn­ing veiðigjalda hef­ur reynst mörg­um þung­ur baggi.

mbl.is