Akurey og Drangey til veiða í vikunni

Engey og Akurey, tvö nýrra systurskipa HB Granda.
Engey og Akurey, tvö nýrra systurskipa HB Granda. Ljósmynd/Kristján Maack

Akurey AK hélt í sína fyrstu veiðiferð í gær og ráðgert er að Drangey SK fari til veiða síðar í vikunni. Síðustu mánuði hefur verið unnið að því hjá Skaganum 3X á Akranesi að setja margvíslegan búnað um borð í skipin.

Reikna má með að þessar veiðiferðir verði öðrum þræði „tæknitúrar“ til að fínstilla tæki og búnað og verða starfsmenn frá Skaganum um borð. Tafir urðu á því að Akurey kæmist til veiða því panta þurfti að nýju hátt í 100 tölvunema í lestarkerfi frá erlendum framleiðanda.

Akurey er eitt þriggja systurskipa, sem HB Grandi fékk á síðasta ári, en skipin voru smíðuð í Céliktrans-skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Fyrst kom Engey og hefur skipið verið á veiðum síðustu mánuði. Viðey var þriðja og síðust í röð systranna og er unnið að því á Akranesi að setja búnað í skipið.

Drangey SK er í eigu FISK á Sauðárkróki og kom til heimahafnar í lok ágúst á síðasta ári. Það er eitt fjögurra systurskipa sem voru smíðuð hjá Cemre-skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Hin eru Björg EA, Björgúlfur EA og Kaldbakur EA, sem eru í eigu Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa. Öll komu skipin til landsins í fyrra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: