Grunaður um kynferðisbrot gegn börnum

Maðurinn var fyrst úrskurðaður í gæsluvarðhald 19. janúar á rannsóknarforsendum. …
Maðurinn var fyrst úrskurðaður í gæsluvarðhald 19. janúar á rannsóknarforsendum. Varðhaldið var framlengt um viku á föstudag. mbl.is/Golli

Karlmaður á fimmtugsaldri hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 19. janúar, grunaður um kynferðisbrot gegn nokkrum börnum. Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld kom fram að maðurinn starfi með börnum og unglingum hjá Reykjavíkurborg og að brotin hafi átt sér stað á sex ára tímabili, frá árinu 2004 til 2010. Brotin snúast aðallega gegn ungum dreng. 

Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisafbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við mbl.is að maðurinn sitji í gæsluvarðhaldi en tekur fram að það sé ekki komið frá lögreglu að maðurinn starfi með börnum.

Maðurinn var fyrst úrskurðaður í gæsluvarðhald 19. janúar á rannsóknarforsendum. Varðhaldið var framlengt um viku á föstudag.

„Þetta er nokkuð viðamikil rannsókn sem við erum að leggja kapp við að ljúka á þeim tíma,“ segir Árni Þór, en hann getur ekki sagt til um hvort farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum í lok vikunnar. „Það er ekki gott að segja. Framvindan í vikunni leiðir það í ljós.“

Í fréttum Stöðvar 2 kom einnig fram að kæran hafi borist lögreglu í lok ágúst, fyrir um fimm mánuðum síðan. Í svari Árna kemur fram að um sé að ræða gömul brot og að málsatvik hafi ekki legið að fullu ljós fyrir. Þá hafi annríki og málafjöldi hjá lögreglu verið það mikill að ekki hafi verið hægt að sinna málinu sem skyldi.

Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisafbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisafbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is