Bygging nýrrar Ölfusárbrúar ofan við Selfoss, sem í bígerð er að reisa innan fárra ára, er meðal verkefna í vegamálum sem kemur til greina að fjármagna með veggjöldum.
Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, sem vill hraða uppbyggingu í sínum málaflokki, þar sem mikilvæg verkefni bíði. Í því efni má nefna tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi, framkvæmd sem Akurnesingar þrýsta nú mjög á um að ráðist verði í, þá hugsanlega með einkaframkvæmd eða aðkomu lífeyrissjóðanna.
„Þessa valkosti verður að skoða með tilliti til jafnræðis og landsins alls,“ segir Sigurður Ingi í samtali um samgöngumálin í Morgunblaðinu í dag.