Það er mjög mikilvægt að lögregla geri viðkomandi barnaverndarnefnd viðvart þegar kynferðisbrotamál þar sem einstaklingur sem starfað hefur með börnum og unglingum koma upp. Þetta segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.
Stöð 2 greindi frá því í gær að karlmaður á fimmtugsaldri, sem starfað hefði með börnum og unglingum hjá Reykjavíkurborg um áratugaskeið, hefði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn lögreglunnar á meintum kynferðisbrotum hans gegn nokkrum börnum.
Bragi segist ekki geta tjáð sig um þetta tiltekna mál, þar sem að hvorki sér, Barnaverndarstofu eða Barnahúsi hafi borist nein vitneskja um það. „Þetta kom mér jafn mikið óvart á öðrum landsmönnum þegar fréttin var birt í gær,“ segir Bragi. „Það er hins vegar mjög mikilvægt að lögregla geri viðkomandi barnaverndarnefnd viðvart þegar að mál af þessu tagi koma upp.“ Þetta eigi vissulega alltaf við þegar grunur leiki á að einstaklingur hafi brotið gegn börnum, en ekki hvað síst þegar grunurinn beinist gegn einstaklingum sem starfa með börnum.
Spurður um álit sitt á þeim langa tíma sem leið frá því málið var fyrst kært, sem var í ágúst í fyrra, og þar til lögregla tók það síðan til rannsóknar nú eftir áramót, ítrekar hann sín fyrri orð um að þekkja ekki til þessa tiltekna máls. „Mögulega spilaði þó aldur einstaklingsins inn í og að kærandinn sé orðin fullorðinn í dag. Ég veit ekki hvort það hafi truflað í þessu máli.“
Bragi segir Barnaverndarlög engu að síður taka sérstaklega á því að viðkomandi barnaverndaryfirvöldum beri að láta mál til sín taka, ef grunur leikur á að börnum stafi ógn af háttsemi einstaklings sem starfar með þeim. „Ég veit ekki hvort að þarna er um að ræða vankunnáttu á ákvæðum barnaverndarlaga, eða hvort að ekki hafi legið fyrir við rannsókn málsins í hvaða trúnaðarstöðu gagnvart börnum þessi einstaklingur var.“
Lögreglan sjálf hafi gefið ákveðnar vísbendingar um þetta er hún tali um álag og mikinn málafjölda. „Þar á lögreglan að sjálfsögðu skilið samúð, en þetta þarf að laga. Við getum ekki búið við ástand þar sem starfsálag veldur því að ekki er gripið til ráðstafanna sem tryggja öryggi barna okkar.“
Samkvæmt frétt Stöðvar 2 gegndi maðurinn bæði starfi stuðningsfulltrúa og starfaði einnig á vistheimili. Bragi bendir á að stuðningsfulltrúar starfi ekki eingöngu á grundvelli barnaverndarlaga og að sér sé ekki kunnugt um það hvort að svo hafi verið í þessum máli. „Það eru til ýmsar gerðir stuðningsmanna segir hann og nefnir stuðningsfulltrúa við fatlaða einstaklinga sem dæmi. „Einstaklingur getur þannig verið að vinna með börnum á grundvelli ólíkra lagaákvæða.“ Bragi bendir þó á að almennt sé ákvæði í þeim lögum sem snúa að málefnum börnum og fólks með fötlun sem kveði á um að starfsmenn þurfi að framvísa sakarvottorði.
„Það er í allflestum lögum ákvæði sem kveða á um slíkt,“ segir hann. „Lögin ein tryggja þó ekki öryggi barnanna með fullnægjandi hætti. Til þess þarf líka fræðslu og að skapa menningu inn á vinnustöðum og öryggi og réttindi barnsins séu stöðugt úrlausnar efni í daglegum störfum.“
Ólíklegt verði að telja að einhvern tímann verði með öllu komið í veg fyrir svona atvik. „Fólk með þessar kenndir hefur einstaka eiginleika til að blekkja,“ segir hann. Það séu þó vissulega eðlileg viðbrögð hjá Sigurði Hólm, forstöðumanni vistheimilisins þar sem maðurinn starfaði að vilja fjölga starfsmönnum á næturvakt þannig að aldrei sé einn á vakt.
„Mér finnst viðbrögð Sigurðar vera mjög eðlileg og rétt,“ segir Bragi. „Ég held hins vegar að við getum aldrei fyrirbyggt að einstaklingar sem ætla að brjóta á börnum geri það. Það útaf fyrir sig þurfum við alltaf að hafa hugfast. Starfsmannafjöldi skiptir vissulega máli, en við megum ekki skapa falskt öryggi.
Þeir einstaklingar sem ætla sér að brjóta á barni munu finna leið til þess. Það besta sem við getum gert er að vera stöðugt á varðbergi og leggja áherslu á að hlusta á börnin og vera í eins náinni samræðu við þau og við getum og treysta þeim og trúa og bregðast við ef þau tjá sig.“