„Við útilokum ekki að fleiri tilkynningar um brot gætu borist á næstu dögum en rannsókninni á kynferðisbrotamálinu hefur miðað mjög vel. Það sama má segja um athugunina á því hvað fór úrskeiðis við meðferð lögreglunnar vegna kæru á hendur stuðningsfulltrúa sem starfaði á vegum barnaverndaryfirvalda og grunaður er um kynferðisbrot í starfi sínu með skjólstæðingum barnaverndaryfirvalda.“
Þetta segir Karl Steinar Valsson lögreglumaður, sem stýrir innri athugun á málsmeðferð lögreglunnar, í Morgunblaðinu í dag.
Karl Steinar segir að samhliða þessu fari fram vinna við að setja niður aðgerðir til þess að hraða vinnu við þau 170 kynferðisbrotamál sem liggja á borði kynferðisbrotadeildar lögreglunnar en þau eru öll á mismunandi stigum.