Áhættumat á starfsemi Barnaverndar

Framkvæmt verður sérstakt áhættumat á allri starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur og allir verkferlar varðandi ábendingar og tilkynningar til Barnaverndar endurskoðaðir með það að markmiði að koma í veg fyrir að mistök endurtaki sig, líkt og þau sem áttu sér stað þegar ekki var brugðist við tilkynningu um meint kynferðisofbeldi starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur sem barst til borgarinnar árið 2008. Lögð verður rík áhersla á að allir fletir málsins verið kannaðir rækilega í samvinnu við innri endurskoðun borgarinnar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur sendi frá sér nú fyrir stundu.

„Barnaverndarnefnd Reykjavíkur harmar mjög að starfsmaður á vegum nefndarinnar hafi beitt börn kynferðislegu ofbeldi. Ekkert barn á að þola ofbeldi og síst af öllu í úrræðum á vegum barnaverndaryfirvalda,“segir einnig í yfirlýsingunni sem send er út vegna máls stuðningsfulltrúa sem situr nú í gæsluvarðhaldi vegna gruns um kynferðisbrot gagnvart börnum, en hann starfaði hjá Barnavernd Reykjavíkur.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tekur málið mjög alvarlega og í yfirlýsingunni segir að unnið hafi verið að því að afla upplýsinga frá því að lögregla tilkynnti um málið í janúar síðastliðinn.

„Fram kom í fjölmiðlum að tilkynningar vegna málsins hefðu borist símleiðis til Barnaverndar Reykjavíkur á árunum 2002 og 2008. Í fréttum RÚV kl. 19 í gær var svo ranglega sagt að slíkar tilkynningar hefðu einnig borist árin 2013, 2015 og 2017. Leiðrétting var birt síðar í fréttatímanum en engu að síður ber að harma að slíkar rangfærslur komi fyrir þegar fjallað er um  jafn viðkvæmt og alvarlegt mál á opinberum vettvangi.“

Formaður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur hefur þegar átt fund með félagsmálaráðherra, en fram kemur að unnið verði með ráðherra, lögreglu og öðrum sem hlut eiga að máli að breytingum á lögum og reglum til að reyna að fyrirbyggja að mál af þessu tagi komi fyrir aftur.

„Á vegum Reykjavíkurborgar verður kannað sérstaklega hvers vegna ekki var brugðist við tilkynningu sem barst til borgarinnar með símtali árið 2008. Ekki hefur fengist staðfesting frá þeim sem kunna að hafa sent inn hliðstæða tilkynningu árið 2002.“

mbl.is