Þau mistök voru gerð hjá embætti lögreglu að upplýsingar um að karlmaður sem var kærður fyrir kynferðisbrot gegn dreng hefði starfað með börnum voru ekki sendar barnaverndaryfirvöldum fyrr en í janúar 2018 þegar rannsókn málsins hófst.
Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur lögreglustjóra á blaðamannafundi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem kynntar voru niðurstöður skoðunar lögreglunnar á því sem fór úrskeiðis þegar dróst á langinn að hefja rannsókn á ætluðum kynferðisbrotum karlmanns, sem starfaði hjá Barnavernd Reykjavíkur og sem stuðningsfulltrúi, gegn dreng sem var á aldrinum 8 til 14 þegar meint brot voru framin.
Fimm manns unnu að innanhúsathugun á málinu undir stjórn Karls Steinars Valssonar, yfirlögregluþjóns og tengslafulltrúi Íslands hjá Europol. Gefin hefur verið út skýrsla um athugunina þar sem kemur fram að meðhöndlun lögreglu á málinu var ekki í samræmi við vinnulag þegar hún barst. „Starfsmönnum er almennt gert aðvart ef verkefnið krefst sérstakra aðgerða. Því var ekki fyrir að fara í þessu tilviki,“ sagði Sigríður.
Í skýrslunni segir að aðkoma stjórnar deildarinnar hafi verið ómarkviss og eðlilegt aðhald ekki fyrir hendi. Stjórnendur hafi þó brugðist hratt og örugglega við þegar ljóst var hvers kyns var.
Meðal þess sem lagt er til í skýrslunni er að umfangsmiklar skipulagsbreytingar verði gerðar á deildinni, meðal annars með því að styrkja yfirmenn samhliða fyrirhugaðri fjölgun starfmanna frá 1. apríl.
Þá er lagt til að gerðar verði breytingar á lögreglukerfinu og öll samskipti lögreglu við barnaverndarnefnd verði skráð í LÖKE.
Sigríður Björk sagði einnig að horfa mætti til annarra landa á Norðurlöndum þegar kæmi að endurskipulagningu deildarinnar.
Samhliða innanhússathuguninni var unnið að frekari greiningu á þeim 170 málum sem nú eru til meðferðar og rannsóknar hjá kynferðisbrotadeild LRH, ekki síst með tilliti til forgangsröðunar.
Niðurstaða þeirrar vinnu er að forgangsröðun 18 mála var breytt.
„Skýrslan var rædd í yfirstjórn embættisins í morgun og þar voru allir sammála um að tillögurnar væru skynsamlegar og farið verður eftir þeim,“ sagði Sigríður Björk.