Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 17:15 í dag þar sem kynna á niðurstöður skoðunar lögreglunnar á því sem kann að hafa farið úrskeiðis þegar dróst á langinn að hefja rannsókn á ætluðum kynferðisbrotum karlmanns,sem starfaði hjá Barnavernd Reykjavíkur og sem stuðningsfulltrúi, gegn dreng sem var á aldrinum 8 til 14 þegar meint brot voru framin.
Tilkynnt var um málið til lögreglu í sumarlok, en ekki var hins vegar brugðist við kærunni fyrr en í desember síðastliðnum, fimm mánuðum eftir að kæran var lögð fram. Á meðan starfaði maðurinn á skammtímaheimili fyrir unglinga í Breiðholti, líkt og hann hafði gert frá árinu 2010.
Þann 19. janúar síðastliðinn var maðurinn loks handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald, og hefur það verið framlengt í tvígang.
Níu einstaklingar hafa nú stöðu brotaþola í málum tengdum manninum, en meint brot hans áttu sér stað frá aldamótum og til ársins 2010.
Skömmu eftir að rannsókn málsins hófst voru skipaðir tveir hópar hjá embættinu til að sinna innri rannsókn undir stjórn Karls Steinars Valssonar, yfirlögregluþjóns og tengslafulltrúa Íslands hjá Europol.
Frétt mbl.is: Innri rannsókn lögreglu gengur vel