„Við erum í kapphlaupi við tímann“

„Síðan var eins og hendi væri veifað. Öllum vinum kippt …
„Síðan var eins og hendi væri veifað. Öllum vinum kippt út og hann dembdi sér inn í þennan heim af fullum krafti.“ mbl.is//Hari

Son­ur þeirra er að verða átján ára eft­ir nokkra mánuði. Það eina sem þau gera er að vona að hann nái því að verða átján ára. Síðasta af­mæl­is­degi eyddi hann á bráðamót­tök­unni eft­ir að hafa tekið of stór­an skammt. Það tókst að bjarga hon­um þá og síðan hef­ur hon­um ít­rekað verið bjargað naum­lega.

Fyr­ir nokkr­um árum var hann ósköp eðli­leg­ur dreng­ur, gekk vel í skóla, átti góða vini og æfði knatt­spyrnu. En á þrett­ánda ári breytt­ist allt. Hann kynnt­ist ein­hverj­um – sem for­eldr­ar hans hafa ekki enn náð upp úr hon­um hver er – sem kynnti hon­um heim sem þau hafði ekki órað fyr­ir að son­ur þeirra myndi kynn­ast, hvað þá að lenda á bólakafi í. Heimi fíkn­ar þar sem hver dag­ur get­ur verið þinn síðasti.

Son­ur þeirra er ekki með nein­ar grein­ing­ar og ekk­ert benti til ann­ars en að hann smellpassaði í boxið.

„Síðan var eins og hendi væri veifað. Öllum vin­um kippt út og hann dembdi sér inn í þenn­an heim af full­um krafti. Frá fyrsta degi kunni hann öll trix­in í bók­inni þannig að við höld­um að það sé ein­hver full­orðinn sem leiðir hann áfram,“ seg­ir móðir hans.

Þau héldu að hann færi í skólann en þess í …
Þau héldu að hann færi í skól­ann en þess í stað lét hann sig hverfa. mbl.is/​Hari

„Við erum búin að reyna mikið til að kom­ast að því hvað gerðist. Eng­inn veit neitt, ekki vin­ir hans né fjöl­skylda. Allt það líf sem hann lifði hvarf. Við skilj­um ekki hvað gerðist og vit­um það ekki. Hann hætti að mæta í skól­ann og þó svo við horfðum á eft­ir hon­um í skól­ann þá kom hann aldrei þangað.“

Fyrst var það kanna­bis en núna hvað sem er og hann er far­inn að sprauta sig. Þeim var fljót­lega ráðlagt að fara með hann á ung­menna­deild­ina á Vogi og þar var hann í tíu daga. Hann var kom­inn í neyslu sama dag og hann kom út af Vogi.

Var í bullandi neyslu á fóst­ur­heim­il­inu

„Eft­ir meðferð tvö feng­um við barna­vernd með okk­ur í lið og þá er ákveðið að senda hann á fóst­ur­heim­ili úti á landi í þeirri von að hægt sé að slíta þessi tengsl sem hann er kom­inn með við ein­hvern sem við vit­um ekki hver er.

Við héld­um að þar færi hann í skól­ann og væri ekki í neyslu en án okk­ar vitn­eskju mæt­ir hann ekki í skól­ann og er í bullandi neyslu, jafn­vel hér á höfuðborg­ar­svæðinu. Mann­eskj­an sem tók hann að sér held­ur því hins veg­ar fram að hann sé ekki í neyslu og allt sé í lagi hjá þeim. Barna­vernd fór fram á að kannað yrði hvort hann væri und­ir áhrif­um fíkni­efna en mann­eskj­an neit­ar því. Það var því gert af hálfu barna­vernd­ar þegar hann kem­ur heim í helgar­leyfi og reyn­ist hann vera und­ir veru­leg­um áhrif­um efna,“ seg­ir faðir hans.

„Næsta úrræði er Lækj­ar­bakki og þar hef­ur hann verið ít­rekað og í neyslu þar án þess að við fáum nokkuð að gert. Okk­ar mat er að stjórn­end­ur þessa mála­flokks hjá Barna­vernd­ar­stofu ráði eng­an veg­inn við verk­efnið sem þeim er ætlað að sinna.

„Okk­ur finnst sem það sé verið að bregðast barn­inu okk­ar og þess­um hópi sem glím­ir við vanda líkt og barnið okk­ar. Okk­ur er mætt með al­gjöru virðing­ar­leysi og við fáum ekki einu sinni svör við spurn­ing­um varðandi mál drengs­ins. Verk­ferla og ákv­arðanir sem tekn­ar hafa verið inn­an Barna­vernd­ar­stofu og varða dreng­inn. Barn sem hef­ur ít­rekað verið flutt nær dauða en lífi með sjúkra­bíl­um á bráðamót­töku. Ef ekk­ert verður að gert þá sjá­um við ekki að hann nái átján ára aldri.

Barna- og unglingageðdeild Landspítala, BUGL.
Barna- og ung­linga­geðdeild Land­spít­ala, BUGL. mbl.is/​Hari

Við erum því í kapp­hlaupi við tím­ann, ekki bara út af því að hann sé í lífs­hættu, held­ur einnig vegna þess að þegar hann verður 18 ára þá er rétt­ur okk­ar að óska eft­ir aðstoð fyr­ir hann eng­inn,“ segja þau.

„Fyr­ir mörg­um árum óskuðum við eft­ir því að barna- og ung­linga­geðdeild­in (BUGL) myndi stíga inn en það var ekki gert. Þrátt fyr­ir að neysl­an hafi ekki verið jafnal­var­leg og hún er í dag. Þá var okk­ur tjáð að hann væri ekki nógu al­var­lega veik­ur en núna er hann orðinn of veik­ur,“ segja for­eldr­ar drengs­ins sem bráðum verður ekki leng­ur skil­greind­ur sem barn í kerf­inu. 

„Við telj­um að það verði að bæta þessa meðferð sem börn og ung­ling­ar fá og þeim veitt meiri aðstoð en núna er. Í stað þess að þetta séu geymslupláss sem manni finnst stund­um eins og séu ætluð til að hvíla aðstand­end­ur. En okk­ur vant­ar ekki hvíld­ar­inn­lögn held­ur vant­ar okk­ur hjálp fyr­ir dreng­inn okk­ar. Við bind­um von­ir okk­ar við að hann fái inni á lokaðri geðdeild fyr­ir fíkla og síðan á meðferðardeild­inni á Laug­ar­ás­vegi þar sem okk­ur er sagt að það sé lang­besta úrræðið fyr­ir ung­menni eins og okk­ar dreng. Í kjöl­farið fengi hann inni í bú­setu­úr­ræði. Hann er hins veg­ar ekki orðinn 18 ára þar sem hann er fædd­ur seint á ár­inu, þannig að við eig­um al­veg eins von á að þurfa að bíða leng­ur. Telj­um að rétta leiðin sé að vera með lang­tíma­úr­ræði og það yrði lag­skipt og ald­urs­skipt,“ seg­ir móðir hans.

Hvernig heldur þú að það sé að horfa upp á …
Hvernig held­ur þú að það sé að horfa upp á barnið sitt vesl­ast upp á stað eins og Stuðlum þar sem hann sit­ur bugaður í frá­hvörf­um án nokk­urs stuðnings? Það eina sem hann ósk­ar eft­ir er að deyja,“ segja for­eldr­arn­ir. mbl.is/​Hari

„Ástandið á heim­il­inu er orðið skelfi­legt, við hjón­in erum að missa heils­una og nán­ast óvinnu­fær, yngri systkini dauðhrædd og ótt­ast um líf okk­ar þegar stjórn­leysið er sem mest. 

Þeir sem hafa reynst okk­ar mjög vel eru sam­starfsaðilar á vel­ferðarsviði í okk­ar sveirta­fé­lagi og svo hef­ur Guðmund­ur Fylk­is­son lög­reglumaður reynst okk­ur ótrú­lega vel og er alltaf til staðar fyr­ir okk­ur hvort held­ur sem það er að degi eða nóttu. Við höf­um ekki tölu á því hvað oft hann hef­ur bjargað lífi drengs­ins okk­ar. Hann kem­ur jafn­vel og heim­sæk­ir dreng­inn okk­ar í frí­tíma sín­um og er alltaf til staðar. Það er lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu sem ann­ast líf­björg þess­ara barna en ekki Barna­vernd­ar­stofa,“ seg­ir faðir hans.

Blaut­ir sokk­ar björguðu lífi hans

Ekki er langt síðan blaut­ir sokk­ar björguðu lífi drengs­ins því eitt skipti sem hann hafði strokið úr meðferð kom hann heim til sín kald­ur og hrak­inn en neitaði að fara í sturtu og þurr föt eins og þau reyndu að fá hann til að gera.

„Hann var í ekki góðu and­legu jafn­vægi og kom til að þakka okk­ur fyr­ir allt sem við höfðum gert fyr­ir hann, kvaddi okk­ur eins og það yrði síðasta skiptið og rauk svo út áður en við náðum að stoppa hann. En það varð hon­um til bjarg­ar að hann samþykkti að fara úr blautu sokk­un­um og fara í þurra. Björg­un­ar­sveit­ar­menn með hunda fundu hann í hríðinni eft­ir að hund­arn­ir höfðu þefað af sokk­un­um. Þá var hann flutt­ur í neyðar­vist­un á Stuðla þar sem hann komst í meiri efni. Síðar það kvöld er hann flutt­ur með sjúkra­bíl á bráðamót­töku þar sem hann var við dauðans dyr.

Þetta er líf fjöl­skyld­unn­ar í hnot­skurn. Við get­um ekki haft hann hér heima þar sem við erum ekki meðferðaraðilar, við erum for­eldr­ar hans. Við erum ekki sátt við meðferðina á Lækj­ar­bakka þar sem hann kemst alltaf í vímu þar en það sem sá staður hef­ur fram yfir heim­ilið hér er að þar er hægt að fylgj­ast bet­ur með hon­um held­ur en við ráðum við.

Hvernig held­ur þú að það sé að horfa upp á barnið sitt vesl­ast upp á stað eins og Stuðlum þar sem hann sit­ur bugaður í frá­hvörf­um án nokk­urs stuðnings. Það eina sem hann ósk­ar eft­ir er að deyja,“ segja for­eldr­arn­ir.

Þetta er ákall eftir hjálp segja foreldrar drengsins.
Þetta er ákall eft­ir hjálp segja for­eldr­ar drengs­ins. mbl.is/​Hari

„Þetta er ákall um hjálp en við erum ekki að fá þá hjálp sem við töld­um í ein­feldni okk­ar að við ætt­um rétt á í þessu vel­ferðarþjóðfé­lagi sem okk­ur er sagt að við búum í. Er þetta vel­ferðin sem mæt­ir þess­um hópi barna og ung­menna sem ekki pass­ar ná­kvæm­lega inn í kerfið? Við get­um ekki sætt okk­ur við þetta og við mun­um gera allt sem í okk­ar valdi stend­ur til þess að reyna að bjarga lífi barns­ins okk­ar og ekki bara okk­ar barni held­ur öðrum börn­um sem eru í sömu spor­um.

Hann er orðinn svo veik­ur að við ótt­umst að þegar hann verður átján ára þá klári hann þetta. Svo grimmt að þegar barn sem hef­ur verið í barna­verndar­úr­ræði í mörg ár þá er hend­inni sleppt á 18 ára af­mæl­is­deg­in­um. Hvað bíður hans þá vit­um við ekki en við von­um bara að hann lifi það af að verða átján ára,“ segja for­eldr­ar þessa unga manns.

Svala Jóhannesdóttir, verkefnisstýra Frú Ragnheiðar, segir að þeim hafi fjölgað …
Svala Jó­hann­es­dótt­ir, verk­efn­is­stýra Frú Ragn­heiðar, seg­ir að þeim hafi fjölgað sem til þeirra komi. mbl.is/ Hari

Alls leituðu um 400 ein­stak­ling­ar í Frú Ragn­heiði árið 2017 og af þeim eru tæp­lega 100 und­ir þrítugu. Ein­stak­ling­ar yngri en átján ára nýta sér ekki þjón­ustu Frú Ragn­heiðar meðal ann­ars vegna til­kynn­ing­ar­skyldu til barna­vernd­ar, seg­ir Svala Jó­hann­es­dótt­ir, verk­efn­a­stýra Frú Ragn­heiðar.

 75% þeirra sem komu til Frú Ragn­heiðar eru karl­menn en 25% kon­ur. 80% af heim­sókn­um voru í nála­skiptaþjón­ustu (og aðra þjón­ustu) og 20% voru í aðra þjón­ustu, eins og heil­brigðisþjón­ustu, fá nær­ingu, fá svefn­poka og tjald­dýn­ur, hlýj­an fatnað eða ráðgjöf og sál­ræn­an stuðning.

80% þeirra sem koma til Frú Ragnheiðar nota vímuefni í …
80% þeirra sem koma til Frú Ragn­heiðar nota vímu­efni í æð. mbl.is/​Hari


Frú Ragn­heiður er sér­inn­réttaður bíll sem er á ferðinni á ákveðnum tím­um á höfuðborg­ar­svæðinu sex kvöld í viku og veit­ir hjúkr­un­ar- og nála­skiptaþjón­ustu fyr­ir heim­il­is­lausa ein­stak­linga og þá sem nota vímu­efni í æð.

Svala seg­ir í viðtali við Ing­veldi Geirs­dótt­ur í Morg­un­blaðinu í síðasta mánuði að þeim hafi ekki fjölgað sem nota vímu­efni í æð á Íslandi en Frú Ragn­heiður nái orðið til mun fleiri ein­stak­linga inn­an hóps­ins.

„80% þeirra sem koma til okk­ar nota vímu­efni í æð, meiri­hluti þeirra er heim­il­is­laus og hinn hlut­inn í leigu­hús­næði. 20% þeirra sem leita til okk­ar koma vegna þess að þau eru heim­il­is­laus,“ seg­ir Svala.

Staða þeirra versn­ar á milli ára

Breyt­ing­ar til hins verra urðu hjá þess­um hóp­um á nýliðnu ári, að sögn Svölu. „Vegna þess að mun fleiri voru farn­ir að sofa úti sem ger­ir það að verk­um að lík­am­legu og and­legu ástandi hrakaði mikið. Þegar fólk lend­ir á göt­unni ýkj­ast öll nei­kvæð ein­kenni eins og af geðrösk­un­um, and­legt ástand versn­ar mjög mikið, sjálfs­vígs­hugs­an­ir aukast og lík­am­leg­ir veik­leik­ar verða meiri, eins og lungna­bólga og al­var­leg­ar sýk­ing­ar.

Svala gagnrýnir að ekki skuli vera opið athvarf yfir daginn …
Svala gagn­rýn­ir að ekki skuli vera opið at­hvarf yfir dag­inn fyr­ir heim­il­is­lausa. mbl.is/​Hari

Á nýliðnu upp­sveiflu­ári voru okk­ar skjól­stæðing­ar í verri stöðu en á ár­un­um áður og það er m.a. hús­næðiseklunni að kenna. Því meiri ójöfnuður og mis­skipt­ing sem verður í sam­fé­lag­inu, því meira heim­il­is­leysi verður, vegna þess að við lít­um á hús­næði sem viðskipta­vöru, en ekki sem mann­rétt­indi.“

Svala gagn­rýn­ir að ekki skuli vera opið at­hvarf yfir dag­inn fyr­ir heim­il­is­lausa. „Næt­ur­skýl­in loka klukk­an tíu á morgn­ana og opna ekki aft­ur fyrr en klukk­an fimm. Þannig að í sjö tíma er þessi hóp­ur úti, sem er mjög erfitt fyr­ir ein­stak­ling­ana og álag á heil­brigðis­kerfið og á borg­ar­sam­fé­lagið.“ 

Fylg­ist áfram með þeim

Guðmund­ur Fylk­is­son, aðal­varðstjóri í lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, hef­ur í rúm þrjú ár stýrt leit að týnd­um börn­um á höfuðborg­ar­svæðinu. Líkt og töl­ur frá lög­regl­unni sýna eru flest­ir þeirra sem leitað er að nálg­ast átján ára ald­ur. Beiðni um að leita að barni kem­ur frá barna­vernd, ekki for­eldr­um eða öðrum ætt­ingj­um. Hann seg­ir það gert til þess að tryggja að barna­vernd sé inni í máli barns­ins allt frá upp­hafi.

Ung­menni verða sjálfráða átján ára og þar lýk­ur al­mennt af­skipt­um Barna­vernd­ar af barni nema í ein­staka und­an­tekn­ing­ar­til­vik­um. Þá er það sam­komu­lag milli viðkom­andi ein­stak­lings og annarra sem koma að.

Guðmund­ur seg­ir að hann hafi samt auga með börn­un­um áfram þrátt fyr­ir að hann sé ekki að leita að þeim. Enda oft kom­inn í ágætt sam­band við viðkom­andi í gegn­um starfið.

Guðmundur Fylkisson hefur veitt mörgum foreldrum og ungmennum aðstoð í …
Guðmund­ur Fylk­is­son hef­ur veitt mörg­um for­eldr­um og ung­menn­um aðstoð í gegn­um tíðina. mbl.is/​Hari

Marg­ir for­eldr­ar barna og ung­menna sem blaðamaður hef­ur rætt við í tengsl­um við grein­ar­skrif­in þakka Guðmundi sér­stak­lega fyr­ir og segja hann oft vera bjarg­vætt­inn sem skipti sköp­um.

Sum­ir velta fyr­ir sér hvort hann sofi aldrei því hann er alltaf reiðubú­inn til að veita aðstoð þegar kallið kem­ur. Guðmund­ur seg­ir að það sem haldi hon­um gang­andi sé að hann finni það bæði frá for­eldr­um og börn­um að þau meti aðkomu hans. Hann sé eðli­lega í mis­miklu sam­bandi við for­eldra og þar sé ákveðinn hóp­ur sem hann láti alltaf vita ef hann fari í leyfi. Þannig að ör­uggt sé að gripið sé inn ef eitt­hvað bjáti á.

Það passa ekki endilega allir í boxin sem kerfið býr …
Það passa ekki endi­lega all­ir í box­in sem kerfið býr til en það breyt­ir því ekki að það eiga all­ir að eiga sama rétt til mann­sæm­andi lífs. mbl.is/​Hari

Á milli 25 og 30 ein­stak­ling­ar voru bú­sett­ir í Reykja­vík í lok árs 2017 sem eru með al­var­lega sam­setn­ingu af eft­ir­far­andi ein­kenn­um: Væg­ar eða miðlungs þroska­haml­an­ir, geðræn vanda­mál og/​eða ein­hverfu og/​eða fíkni­vanda.

Sum­ir þess­ara ein­stak­linga eru í sér­smíðuðum úrræðum hjá vel­ferðarsviði Reykja­vík­ur­borg­ar.  Sum­ir búa í for­eldra­hús­um og bíða eft­ir úr­lausn, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá skrif­stofu um mál­efni fatlaðs fólks á vel­ferðarsviði Reykja­vík­ur­borg­ar. Þess­ir ein­stak­ling­ar eru þá skil­greind­ir með al­var­leg­an vanda og bíða eft­ir skjótri úr­lausn. 

Gagn­rýn­ir úrræðal­eysið harðlega

Vandi þess­ara ung­menna er mik­ill og vel­ferðarsviðið hef­ur unnið hörðum hönd­um að því að finna leiðir til að veita þeim stuðning, m.a. stofnað sér­stakt stuðnings- og ráðgjaf­art­eymi (STRÁ) fag­lærðs fólks til að styðja við ein­stak­ling­ana, for­stöðumenn þar sem þau búa og/​eða aðstand­end­ur þeirra. Þá er sam­vinna við geðheil­brigðis­kerfið mjög mik­il­væg í mörg­um þess­ara mála þar sem þarf þver­stofnana­lega aðkomu til að styðja fólk.

Guðmundur Sævar Sævarsson er deildarstjóri á öryggis- og réttargeðþjónustu Landspítalans. …
Guðmund­ur Sæv­ar Sæv­ars­son er deild­ar­stjóri á ör­ygg­is- og rétt­ar­geðþjón­ustu Land­spít­al­ans. Hann hef­ur mikl­ar áhyggj­ur af fólki sem er með þroska­haml­an­ir ásamt því að glíma við geðrask­an­ir. mbl.is/​Hari

Guðmund­ur Sæv­ar Sæv­ars­son, deild­ar­stjóri ör­ygg­is- og rétt­ar­geðþjón­ustu Land­spít­ala, tek­ur und­ir þetta en hann hef­ur harðlega gagn­rýnt úrræðal­eysi í mál­efn­um ein­stak­linga með þroska­skerðingu sem þurfa á geðheil­brigðisþjón­ustu að halda. Eng­in slík deild er rek­in á Íslandi. 

„Þroska­skert­ir verða að fá sér­tæka deild því við erum ekki að sinna þeim rétt. Við þurf­um að hanna deild­ina að þörf­um þeirra og meðal ann­ars fá þroskaþjálf­ara til starfa. Eins og staðan er í dag þá eru fatlaðir ein­stak­ling­ar sem eru með geðgrein­ingu og með hegðun­ar­bresti send­ir á mót­töku­deild­ina á geðdeild­inni á Hring­braut. Deild­ir sem eru alltaf full­ar og yf­ir­leitt gott bet­ur en það. Þú get­ur ekki sent fatlaða ein­stak­linga með geðrösk­un inn í þetta kraðak. En það erum við að gera því það er ekk­ert annað í boði,“ seg­ir Guðmund­ur.

Eiga ekki heima á ör­ygg­is­deild

Hann seg­ist sann­færður um að ef þess­ir ein­stak­ling­ar fengju viðeig­andi aðstoð þá væru hegðun­ar­brest­irn­ir yf­ir­leitt fyr­ir bí.

„Þetta fólk á ekki heima á ör­ygg­is­deild. Þeir sem eru þar eru yf­ir­leitt ung­ir karl­ar og yfir 90% þeirra eru í fíkni­efn­um og sturlaðir á köfl­um. Sérðu fyr­ir þér að ung þroska­skert kona sé send hingað inn? Nei, það á ekki að vera þannig en við höf­um þurft að gera það. Það gekk upp í þessu ímyndaða til­felli með því að vernda hana og þess gætt að hún væri með her­bergi þar sem hægt er að fylgj­ast með henni all­an tím­ann. Deild­irn­ar sem við erum með á geðsviði Land­spít­al­ans eru ekki hannaðar með þetta í huga og þess vegna vil ég slíka deild og við finn­um að það er gíf­ur­leg þörf fyr­ir slíka deild,“ seg­ir Guðmund­ur.

„En í dag erum við taka við þeim á mót­töku­deild­un­um og þeir eru síðan send­ir heim þar sem  starfs­fólkið á heim­il­inu tek­ur við þeim og veit ekki hvað á að gera. Það skipt­ir engu hvort viðkom­andi er með þroska­skerðingu eða ekki, hann á betra skilið. Það eiga all­ir rétt til mann­sæm­andi meðferðar og lífs,“ seg­ir Guðmund­ur. 

Hef­ur mest­ar áhyggj­ur af þeim sem ekk­ert heyr­ist í

Að hans sögn hef­ur hann ekki áhyggj­ur af þeim sem hæst láta og eru óró­leg­ast­ir á slík­um sam­býl­um held­ur miklu frek­ar ein­stak­lingn­um sem ekk­ert heyr­ist í. Sá sem lok­ar sig einn inni í her­bergi og læt­ur lítið fyr­ir sér fara.

„Hann er kannski hrylli­lega veik­ur en eng­inn ger­ir neitt því það fer ekk­ert fyr­ir hon­um. Ég vil fara yfir lyf­in hjá viðkom­andi og hvort þessi mikli lyfja­skammt­ur sem hann er vænt­an­lega að fá er að gera eitt­hvað fyr­ir hann. Erfitt get­ur verið að gera breyt­ing­ar á lyfja­gjöf viðkom­andi nema hann sé lagður inn. Hvenær fór þessi ein­stak­ling­ur síðast í mynda­töku, blóðprufu og hvernig er staðan á tönn­um hans? Þess­ir ein­stak­ling­ar hafa ekki efni á að fara til tann­lækn­is. Við þurf­um að sinna þess­um hóp og ef við ger­um það ekki þá ger­ir það eng­inn,“ seg­ir Guðmund­ur. 

Þetta er hóp­ur sem þarf að nálg­ast heil­rænt í sam­vinnu við viðkom­andi sér­fræðistétt­ir og miðpunkt­ur­inn þarf að vera sér­tæk deild sem tek­ur ábyrgð, seg­ir hann.

Ekki er hægt að nýta öll herbergin á öryggisdeildinni vegna …
Ekki er hægt að nýta öll her­berg­in á ör­ygg­is­deild­inni vegna þess hversu illa búin hún er. mbl.is/​Hari

Hann seg­ir að gríðarleg­ar breyt­ing­ar hafi orðið á geðsviðinu und­an­far­in tutt­ugu ár og álagið auk­ist sam­fara mik­illi aukn­ingu á fíkni­efna­neyslu. „Ungt fólk í dag virðist horfa á kanna­bisneyslu sem sjálf­sagðan hlut og koma með rök­in að það sé ekk­ert verra en áfengi. Auðvitað er áfengi ekki betra en það er lög­legt og mis­notk­un, hvort sem það eru fíkni­efni eða áfengi, end­ar með skelf­ingu,“ seg­ir Guðmund­ur.

Með auk­inni fíkni­efna­neyslu er ör­ygg­is­deild­in eig­in­lega alltaf full en alls eru rým­in átta tals­ins, seg­ir Guðmund­ur. 

Hús­næðið ein­fald­lega of hættu­legt

„Hús­næði ör­ygg­is­deild­ar­inn­ar er ein­fald­lega of hættu­legt í dag, sjúk­ling­um sem og starfs­mönn­um. Þetta er ekki mönn­um bjóðandi og við erum að bjóða veiku fólki upp á þessa aðstöðu. Sturt­urn­ar stand­ast ekki lág­marks­ör­yggis­kröf­ur, þar m.a. er hægt að skaða sig al­var­lega. Svipaða sögu er hægt að segja um her­berg­in þrátt fyr­ir að við höf­um tekið ým­is­legt í burtu en það er tak­markað hvað hægt er að taka. Við vilj­um hafa her­berg­in þannig að fólki líði vel þar. Við get­um ekki einu sinni fylgst al­menni­lega með fólki sem er í sjálfs­vígs­hættu. Til að mynda er ekk­ert ljós inni hjá þeim þannig að starfs­fólk horf­ir inn í myrk­ur og þarf að opna hurðina til að kanna með sjúk­ling­inn sem eðli­lega vakn­ar við áreitið. Er það sem við vilj­um að sjúk­ling­arn­ir geti ekki einu sinni sofið?“ spyr Guðmund­ur. 

Guðmund­ur Sæv­ar seg­ist hafa ít­rekað óskað eft­ir úr­bót­um en ekk­ert ger­ist og á sama tíma er ekki hægt að nýta alla deild­ina vegna slæms aðbúnaðar.

„Síðan verðum við að halda einu rými opnu ef okk­ar ein­stak­ling­ar þurfa á inn­lögn að halda að nýju. Flest­ir þeirra eru of viðkvæm­ir til þess að fara inn á Hring­braut og þeir eiga sitt ör­ugga skjól hér. Því við vit­um að ef þeir byrja aft­ur í neyslu er voðinn vís. Við lít­um á það sem okk­ar skyldu, bæði fyr­ir sam­fé­lagið og sjúk­ling­inn sjálf­an að kippa þeim inn hingað og við ger­um það. 

Á meðan ekki næst skiln­ing­ur stjórna­valda á því um­hverfi sem við erum að vinna við og [því] for­gangsraðað er stutt í að við för­um að bera okk­ur sam­an við heil­brigðis­kerfi fá­tæk­ustu þjóða fyr­ir þá sem minnst mega sín. Svo tal­ar fólk um að það sé til nóg af pen­ing­um en þeir eru ekki að fara hingað að minnsta kosti. All­ir eru að reyna að gera sitt besta bæði á Land­spít­al­an­um og á vel­ferðarsviði Reykja­vík­ur­borg­ar en við erum orðin ansi þreytt á að berja hausn­um í vegg.

Starfið snýst ekki leng­ur um góða stjórn­un­ar­hætti held­ur miklu frek­ar hversu góður ertu að væla út pen­inga ein­hvers staðar. Svo þú get­ir gert eitt­hvað þó það væri ekki annað en að skipta um hús­gögn.

Við þurf­um að reiða okk­ur á góðgerðarsam­tök til þess og við hér á þessu sviði höf­um notið góðs af góðvilja Odd­fellow-hreyf­ing­ar­inn­ar sem hef­ur staðið dyggi­lega á bak við okk­ur. Ef við hefðum hana ekki þá veit ég ekki hvar við vær­um. Svo virðist sem það sé eng­inn áhugi á að breyta aðbúnaði veiks fólks á geðdeild­um og á meðan deyr fólk,“ seg­ir Guðmund­ur en hann stýr­ir einnig rétt­ar­geðdeild­inni. 

Þar geta 9 manns dvalið og hann seg­ir aðbúnaðinn þar miklu betri en á ör­ygg­is­deild­inni því hún var hönnuð frá grunni í sam­ræmi við starf­sem­ina við flutn­ing­inn frá Sogni árið 2012. Þó svo þeir sem þar dvelji eigi að fara þegar þeir ljúka sinni meðferð þá er það að ger­ast oft­ar á síðustu 2 árum að þeir eru hús­næðis­laus­ir og verða strandaglóp­ar á deild­inni. Starfs­fólk deild­ar­inn­ar hvorki get­ur hugsað sér, né hef­ur laga­lega heim­ild að senda þá á göt­una.

Réttargeðdeildin var flutt til Reykjavíkur fyrir nokkrum árum eftir að …
Rétt­ar­geðdeild­in var flutt til Reykja­vík­ur fyr­ir nokkr­um árum eft­ir að hafa verið starf­rækt um ára­bil á Sogni. mbl.is/​Hari

„Okk­ar hlut­verk [er] að end­ur­hæfa þessa ein­stak­linga þannig að þeir verði hæf­ir til þess að koma út í lífið að nýju. Hér hafa þeir mögu­leika á námi en ekki vinnu því miður. Ef við hjálp­um þeim ekki að tak­ast á við lífið er mik­il hætta á að þeir geti það aldrei og hvað kost­ar það þjóðfé­lagið?“ seg­ir Guðmund­ur sem hef­ur óskað eft­ir svör­um frá heil­brigðisráðherra, Svandísi Svavars­dótt­ur, um úrræði í hús­næðismál­um geðsviðs Land­spít­al­ans svo hægt sé að vera með skil­virk­ar aðgerðir til að koma í veg fyr­ir sjálfs­víg á geðdeild­um sjúkra­húss­ins, tengt hús­næðis­vanda og bæta lífs­gæði fólks.

Eins hef­ur hann lagt fram fyr­ir­spurn um hvort setja eigi af stað vinnu svo hægt sé að veita sér­hæfða geðheil­brigðisþjón­ustu fyr­ir fatlaða ein­stak­linga með flókna og sam­setta grein­ingu sem var samþykkt með þings­álykt­un um stefnu og fram­kvæmda­áætl­un í mál­efn­um fatlaðs fólks fyr­ir árin 2017–2021.

Inga Birna Sigfúsdóttir, ráðgjafi hjá Sjónarhóli, og Sigurrós Á. Gunnarsdóttir, …
Inga Birna Sig­fús­dótt­ir, ráðgjafi hjá Sjón­ar­hóli, og Sig­ur­rós Á. Gunn­ars­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sjón­ar­hóls. mbl.is/​Hari

Úrræði fyr­ir for­eldra

Sjón­ar­hóll er ráðgjaf­armiðstöð fyr­ir for­eldra og aðstand­end­ur barna með sérþarf­ir. Engu skipt­ir hversu göm­ul börn­in eru enda segja þær Sig­ur­rós Á. Gunn­ars­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sjón­ar­hóls, og Inga Birna Sig­fús­dótt­ir, ráðgjafi hjá Sjón­ar­hóli, að börn séu alltaf börn for­eldra sinna sama hversu göm­ul þau eru. Þjón­ust­an er veitt án end­ur­gjalds en þar er veitt for­eldramiðuð ráðgjaf­arþjón­usta þar sem þarf­ir fjöl­skyld­unn­ar eru í brenni­depli. Hvort held­ur sem for­eldr­ar tali ís­lensku eða enga ís­lensku því Sjón­ar­hóll út­veg­ar túlka án end­ur­gjalds fyr­ir fólk af er­lend­um upp­runa. 

Inga Birna seg­ir al­gengt að for­eldr­ar ung­menna sem eru orðin meira en 18 ára leiti til þeirra enda margt sem breyt­ist við sjálfræðis­ald­ur og ekki síst rétt­indi for­eldra til þess að hafa eitt­hvað um mál­efni barna sinna að segja.

Sig­ur­rós seg­ir að sam­kvæmt lög­um eigi all­ir sinn rétt þó svo viðkom­andi hafi ekki þroska til þess að fara með fjár­ráð í sínu sjálfræði. Raun­veru­leg dæmi eru um að ung­menni fái greitt úr al­manna­trygg­inga­kerf­inu mánaðarlega og að það fjár­magn sé jafn­vel farið á ör­fá­um dög­um.

„Við telj­um mik­il­vægt að und­ir­búa fólk und­ir það sem ger­ist við átján ára ald­ur. Bæði for­eldra og ung­menni því sum­ir ein­stak­ling­ar þurfa lengri tíma en aðrir til þess að læra skipu­lag á fjár­mál­um, dag­lega um­hirðu og fleira. Þetta þarf að gera í góðri sam­vinnu milli heim­ila og skóla þannig að þegar 18 ára aldri er náð þá gangi fjöl­skyld­an í takt. Við get­um ekki skellt ungu fólki inn í eitt­hvert hlut­verk sem þau hafa ekki fengið að máta sig inn í,“ seg­ir Inga Birna.

Mjög hefur dregið úr því að framhaldsskólanemar taki þátt í …
Mjög hef­ur dregið úr því að fram­halds­skóla­nem­ar taki þátt í fé­lags­lífi inn­an skól­ans því þeir hafa ein­fald­lega ekki tíma til þess. mbl.is/​Hari

Stökk á milli skóla­kerfa oft erfitt

Stór hluti ung­menna vinn­ur með skóla og á sama tíma ráða mörg þeirra ekki við að sinna námi og tóm­stund­um eins og þau ættu að gera. Mjög hef­ur dregið úr því að fram­halds­skóla­nem­ar taki þátt í fé­lags­lífi inn­an skól­ans því þeir hafa ein­fald­lega ekki tíma til þess. Þetta er ekki góð þróun seg­ir Sig­ur­rós.

„Mik­il áhersla hef­ur verið á bók­legt nám og við vit­um að fyr­ir mörg börn og ung­menni er stökkið úr grunn­skóla í fram­halds­skóla mikið. Til að mynda mætti gera iðnnámi hærra und­ir höfði og þá strax frá upp­hafi skóla­göngu. Með því að skera við nögl list- og verk­nám í grunn­skól­um er verið að draga úr lík­um á því að þau geri sér grein fyr­ir því hvað iðnnám er spenn­andi val­kost­ur þegar þau fara í fram­halds­skóla,“ seg­ir Sig­ur­rós.

 „Við höf­um áhyggj­ur af því að með löng­um biðlist­um leiti fólk til einkaaðila varðandi grein­ing­ar. Við ótt­umst að þetta geti haft þau áhrif að ekki séu fyr­ir­liggj­andi rétt­ar upp­lýs­ing­ar um stöðu mála. Til að mynda ef grein­ing­ar­vinna ung­menn­is hjá sál­fræðingi er skrifuð á for­eldr­ana sjálfa til þess að þeir geti fengið sál­fræðitím­ann niður­greidd­an af stétt­ar­fé­lagi sínu. Ég er ekk­ert að segja að þetta sé gert en hætt­an er fyr­ir hendi og þá spyr maður sig hvort töl­fræðileg­ar upp­lýs­ing­ar geti verið mis­vís­andi þegar kem­ur að þörf­um inn­an okk­ar grunnþjón­ustu,“ seg­ir Sig­ur­rós. Hvert stefn­um við sem sam­fé­lag með okk­ar grunnþjón­ustu? Sam­fé­lagið á að sinna allri grunnþjón­ustu fyr­ir börn og ung­menni og segj­ast þær vilja sjá að fjár­mun­ir sem fara inn í einka­rek­in úrræði verði nýtt­ir í að styðja við ung­menn­in í sínu nærum­hverfi. Til að mynda ung­menni sem glíma við margþætt­an vanda en við erum ekki með nein úrræði önn­ur en einka­rek­in.

„Ef við vilj­um fara þessa leið, það er að flytja grunnþjón­ustu inn í einka­geir­ann, þá verður að vera gríðarlega gott og mikið eft­ir­lit með þeim sem reka slík úrræði. En er öll­um ljóst hver ber ábyrgðina á slíku eft­ir­liti? Og hvernig eft­ir­fylgni er háttað?“ spyr Inga Birna.

Til Sjón­ar­hóls leit­ar fólk með marg­vís­leg vanda­mál vegna barna sinna. Sig­ur­rós seg­ir að það sé skelfi­legt að sjá og heyra af börn­um allt niður í 9 og 10 ára sem glími við kvíða og eru í sjálfsskaða- eða sjálfs­vígs­hug­leiðing­um.

Sár­lega vant­ar úrræði fyr­ir ung­menni með margþætt­an vanda. Til að mynda er ekki til sér­hæft úrræði fyr­ir fötluð ung­menni sem kom­in eru í neyslu. Inga Birna seg­ir að meðferðarúr­ræði fyr­ir ung­menni með ein­hverfu, þroska­höml­un eða aðrar rask­an­ir séu ein­fald­lega ekki til. Börn og ung­menni með geðheil­brigðis­vanda líða fyr­ir skort á úrræðum. Það er staðreynd! Segja þær stöll­ur.

Kerfið er svo fast í ein­hverj­um skúff­um og for­eldr­arn­ir allt of oft ráðalaus­ir. Þegar fólk leit­ar til Sjón­ar­hóls þá er barn þeirra kannski búið að velkj­ast fram og aft­ur í kerf­inu. Til að mynda er for­eldr­um ung­menna sem glíma við margþætt­an vanda oft bent á úrræði sem ná illa utan um al­var­lega stöðu mála, þ.e. eru ekki nógu öfl­ug miðað við al­var­leika, seg­ir Inga Birna.

Sig­ur­rós tek­ur und­ir þetta og seg­ir að þau þurfi að fá aðstoð þar sem ein­hver held­ur utan um fjöl­skyld­una, þar kem­ur aðkoma ráðgjafa Sjón­ar­hóls sterkt inn, þar sem við styðjum við for­eldra og aðstand­end­ur með ráðgjöf og eft­ir­fylgd.

Rafrænt heilkenni hjá börnum er að verða vandamál.
Ra­f­rænt heil­kenni hjá börn­um er að verða vanda­mál. mbl.is/​Hari

Þau börn sem eru með flók­in tauga­frá­vik í þroska virðast vera viðkvæm­ari en önn­ur fyr­ir snjall­tækn­inni. Þetta eru börn með of­virkni, at­hygl­is­brest, ein­hverfu, tourette-ein­kenni eða asp­er­ger svo dæmi séu tek­in. Dæmi eru um að mik­il skjánotk­un geti leitt til ör­orku. For­eldr­ar og for­ráðamenn þurfa að vera vak­andi fyr­ir áhrif­um þess­ar­ar nýju tækni­bylt­ing­ar á börn sín. Tækn­in hafi ótal kosti en líka galla sem ekki má líta fram hjá. Þær Inga Birna og Sig­ur­rós taka und­ir með Birni Svein­björns­syni, sér­fræðingi á barna- og ung­linga­geðdeild­inni, sem tal­ar um ra­f­rænt skjá­heil­kenni hjá börn­um.

Í er­indi Björns Hjálm­ars­son­ar, barna­lækn­is á barna- og ung­linga­geðdeild Land­spít­al­ans (BUGL), á ráðstefnu ný­verið kom fram að tölvu­notk­un geti leitt til ör­orku. Hann nefn­ir dæmi um að geðlækn­ar á BUGL standi frammi fyr­ir þeim kosti að þurfa að setja unga drengi á aldr­in­um 16 til 18 ára á ör­orku vegna tölvu­notk­un­ar. Ástæðan er sú að annaðhvort eru þeir í tölv­unni eða rúm­inu, hafa ein­angrað sig frá sam­fé­lag­inu og stunda hvorki skóla né vinnu. Eng­in önn­ur úrræði virka. „Þetta er nýtt form af ör­orku. Ef það væri ekki fyr­ir net­miðlana og tölvu­notk­un þá ættu þess­ir ein­stak­ling­ar að geta stundað vinnu og skóla,“ seg­ir Björn. 

mbl.is