Full ástæða til að íhuga stöðuna

Kristján segir að ljóst sé af lestri skýrslunnar að þessi …
Kristján segir að ljóst sé af lestri skýrslunnar að þessi slæma þróun sé ekki bundin við einn ákveðinn útgerðarflokk. Ljósmynd/Þröstur Njálsson

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir í samtali við 200 mílur að taka verði alvarlega niðurstöður skýrslu Deloitte, sem gefin var út í gær.

„Það hlýtur að vera töluvert umhugsunarefni fyrir alla þegar framlegð í einum af grunnatvinnugreinum þjóðarinnar dregst saman með þeim hætti sem þarna er sýnt fram á,“ segir Kristján.

„Það er nauðsynlegt fyrir alla að horfast í augu við þetta, annað væri ábyrgðarlaust. Ekki bara gagnvart þeim sem standa í útgerð eða fiskvinnslu heldur ekki síður þeim sem eiga aðra hagsmuni undir, fiskverkafólk, sjómenn og samfélagið allt raunar. Það hangir svo margt á sjávarútveginum að það er full ástæða til að íhuga þessa stöðu.“

Kristján Þór Júliússon, sjávarútvegsráðherra.
Kristján Þór Júliússon, sjávarútvegsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján segir að ljóst sé af lestri skýrslunnar að þessi slæma þróun sé ekki bundin við einn ákveðinn útgerðarflokk. „Afkoman er að dala í heild í atvinnugreininni.“

Spurður hvar brýnast sé að taka til hendinni segir hann mikilvægt að athuga almenn starfsskilyrði fyrirtækja í sjávarútvegi. „Menn hugleiði það hvernig sjávarútvegurinn stendur í samkeppni sinni við sambærilegan atvinnurekstur í öðrum löndum, því allt snýst þetta í raun um að geta selt þá vöru sem Íslendingar vinna og veiða. Allt sem getur styrkt samkeppnisstöðu á erlendum mörkuðum er af hinu góða.“

Fjöldi mismunandi þátta

Spurður um áform ríkisstjórnarinnar hvað varðar endurskoðun á veiðigjöldum segir ráðherrann að það sé á þingmálaskránni.

„Veiðigjöldin eru einn þeirra þátta sem þarf að skoða, en auk þeirra skipta máli í þessu sambandi laun, gengi krónunnar og útgerðarkostnaður. Þetta er fjöldi mismunandi þátta sem spila saman,“ segir Kristján og bætir við að gengið sé stærsti áhrifavaldurinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: