„Það er alveg ljóst að við munum skoða réttarstöðu umbjóðenda minna í kjölfar þessarar skýrslu með það í huga að sækja rétt þeirra gagnvart borginni,“ segir Sævar Þór Jónsson, lögmaður og réttargæslumaður drengsins sem lagði fram kæru á hendur karlmanni á fimmtugsaldri í ágúst á síðasta ári fyrir kynferðisbrot sem hann á að hafa framið gegn honum á árunum 2004 til 2010. Karlmaðurinn starfaði sem stuðningsfulltrúi á heimili Barnaverndar Reykjavíkur þegar brotin áttu sér stað.
Frétt mbl.is: Stuðningsfulltrúi verði áfram í haldi
Í skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á verkferlum og reglum er varða tilkynningar og ábendingar sem berast til Barnaverndar Reykjavíkur, sem kom út í dag, kemur fram að mistök starfsmanns hjá Reykjavíkurborg leiddu til þess að tilkynning um kynferðisbrot mannsins barst ekki til stjórnenda.
Frétt mbl.is: Starfsmaður borgarinnar gerði mistök
Sævar segir það þunnan þrettánda að rekja mistökin til þess að símsvörun hafi ekki verið í lagi og að starfsmaður hafi ekki komið skilaboðum til Barnaverndar Reykjavíkur. „Ég dreg það alveg stórlega í efa að einhver sem hringir inn í þjónustuver borgarinnar sé að tjá sig um svo viðkvæm mál við þann starfsmann sem svarar því símtali, hann biður eflaust um einhvern innan barnaverndarnefndar til að svara símtalinu.“
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefur boðað umbjóðendur Sævars til sín til að fara yfir málið. „Þeir hafa ekki þegið boðið að svo stöddu. Þau vilja kanna sína réttarstöðu, bæði gagnvart borginni og velferðarsviði,“ segir Sævar, sem segir að það séu meiri líkur en minni að umbjóðendur hans muni láta reyna á bótagrundvöll í málinu.
„Það er klárlega búið að viðurkenna það að það hafi átt sér stað mistök sem geta hafa leitt til þess að ef verkferlar hefðu verði í lagi innan borgarinnar þá hefði hugsanlega verið hægt að grípa fyrr inn í gagnvart þessum manni og komið í veg fyrir brot sem áttu sér stað, allt aftur til 2010.“
Að mati Sævars liggur alvarleiki málsins fyrst og fremst í því að mistök hafa átt sér stað frá upphafi. „Líkt og lögreglan hefur Barnaverndarnefnd viðurkennt þau mistök og það þarf auðvitað að kanna enn dýpra. Við erum ekki að tala um lítilfjörlegt atriði, við erum að tala um grafalvarleg mál. Það áttu sér stað hugsanleg kynferðisbrot gegn umbjóðenda mínum allt aftur til 2010. Ef verkferlar hefði verið í lagi hefði verið hægt að grípa fyrr inn í og koma í veg fyrir sum brotanna.“
Sævar segir að eftir því sem málið dregst á langinn þyngist það. „Þetta er mjög þungt mál fyrir þá sem koma að því. Það hefur komið í ljós að þetta er mun alvarlegra mál en haldið var í upphafi.“
Í skýrslu Innri endurskoðunar borgarinnar sem kynnt var í dag er að finna aðgerðaráætlun í tíu liðum til að bregðast við og auka öryggi barna. Í áætluninni felst meðal annars að styrkja ráðningarferli innan velferðarsviðs borgarinnar, koma á rafrænum ábendingahnappi og þá verður gerð úttekt á skipulagi barnaverndarstarfs.
Sævar þorir ekki að spá fyrir um hver niðurstaða málsins verður en hann segir það jákvætt að stjórnvöld virðast ætla að lofa bót og betrun á verkferlum. „Þá er ég aðallega að tala um lögreglu og Barnaverndarnefnd en það er samt sem áður búið að eiga sér stað það alvarleg mistök að þarna eru einstaklingar sem hafa orðið fyrir gríðarlegu tjóni. Við erum að tala um mistök sem hafa átt sér stað í nútímanum, þannig séð, þetta er ekki margra áratuga gamalt og það er áfall en ég vænti þess að það komi ásættanleg niðurstaða í málið, miðað við hvernig hefur verið unnið að málinu hér eftir.“