Tilkoma Hvammsvirkjunar mun bæði hafa neikvæð áhrif á landslag sem og útivist og ferðaþjónustu á svæðinu að mati Skipulagsstofnunar, en álit stofnunarinnar á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar liggur fyrir.
Fram kemur í álitinu að umfangsmestu áhrif virkjunarinnar á landslag verði í farvegi Þjórsár og við bakka hennar. Sérstaklega við og í nánd við ármótin við Þverá, þar sem lónið fari að og yfir núverandi vegstæði Þjórsárdalsvegar, sem sé ein aðalleiðanna inn á miðhálendið sunnanlands. Hinsvegar neðan stíflunnar þar sem rennsli Þjórsár skerðist verulega.
„Skipulagsstofnun telur að áhrif virkjunarinnar á landslag verði verulega neikvæð í ljósi þess að umfangsmiklu svæði verður raskað og mjög margir verða fyrir neikvæðum áhrifum vegna ásýndar- og yfirbragðsbreytinga auk þess sem áhrif af virkjuninni verða varanleg og óafturkræf,“ segir í áliti stofnunarinnar.
Mikilvægt sé að ráðist verði í mótvægisaðgerðir meðal annars með útfærslu bakka og stíflugarða svo draga megi eins og kostur sé úr manngerðri ásýnd lónsins auk annarra aðgerða sem fjallað sé um í matsskýrslu Landsvirkjunar.
Hvað útivist og ferðaþjónustu varðar segir Skiplagsstofnun að áhrif Hvammsvirkjunar ráðist af áhrifum framkvæmdanna á landslag. Auk sjónrænna áhrifa þeirra munu þær einnig hafa áhrif á upplifun þeirra sem stunda útivist á svæðinu þar sem árniður í straumþungu fljóti víkur fyrir lóni og vatnslitlum farvegi á kafla neðan stíflu.
„Ásýnd umfangsmikils svæðis kemur til með að breytast í heild og mun einkennast að mannvirkjum Hvammsvirkjunar sem munu sjást víða að en einkum í mikilli nálægð frá veginum upp í Þjórsárdal, sem er ein aðalleið upp á hálendið, og heimilum íbúa og sumarhúsum í grennd við fyrirhugaðar framkvæmdir. Stofnunin undirstrikar mikilvægi mótvægisaðgerða sem fjallað er um í matsskýrslu Landsvirkjunar um að draga úr sjónrænum áhrifum framkvæmdanna.“
Skipulagsstofnun telur að framkvæmdirnar séu líklegar til að hafa talsverð neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu vegna þessara breytinga sem munu verða á upplifun ferðamanna og þeirra sem stunda útivist á svæðinu.