„Þetta eru kerfislæg mistök sem þarna hafa átt sér stað bæði hjá lögreglu og borginni. Lögregla hefur játast við því og tekið á því. Borgin er því miður, og þá er ég að tala um Velferðarsviðið, er að búa til skýringar á því að einhver ótilgreindur starfsmaður hafi gert mistök,“ segir Sævar Þór Jónsson. Hann er lögmaður og réttargæslumaður drengsins sem lagði fram kæru á hendur karlmanni á fimmtugsaldri í ágúst á síðasta ári fyrir kynferðisbrot sem hann á að hafa framið gegn honum á árunum 2004 til 2010. Karlmaðurinn starfaði sem stuðningsfulltrúi á heimili Barnaverndar Reykjavíkur þegar brotin áttu sér stað.
Í skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á verkferlum og reglum er varða tilkynningar og ábendingar sem berast til Barnaverndar Reykjavíkur, sem kom út í gær, kemur fram að mistök starfsmanns hjá Reykjavíkurborg leiddu til þess að tilkynning um kynferðisbrot mannsins barst ekki til stjórnenda.
Það er alveg klárt að við munum láta reyna á bótaréttinn ef í ljós kemur að hann [stuðningsfulltrúinn] verður dæmdur fyrir refsivert athæfi og fundinn sekur fyrir brot gegn mínum umbjóðendum. Þá er alveg klárt mál að það verður látið reyna á það fyrir rétti.“
Sævar segir mikla reiði hjá sínum umbjóðendum gagnvart Barnaverndar og Velferðarsviði, sem séu ekki tilbúnir á næstunni til að þekkjast fundarboð Barnaverndar til að fara yfir málið.
„Það að setjast niður með mínum umbjóðendum til að fara yfir þessi mistök, það finnst manni eingöngu ætlað að þjóna þeim tilgangi að afsaka sig. Við erum hins vegar að tala um mjög alvarleg brot og alvarlegar afleiðingar,“ segir Sævar.
„Það liggur alveg ljóst, eins og málið er vaxið, að borgin er búin að taka á sig ábyrgð á því að verkferlar hafi ekki verið í lagi.“ Það megi því leiða að því líkum, sérstaklega varðandi yngri umbjóðanda sinn sem brotið hafi verið gegn á árabilinu 2004-2010, að hefði ábendingunni sem borginni barst 2008 verið sinnt þá hefði verið hægt að koma í veg fyrir frekari brot gegn honum.
„Það er grafalvarlegt mál ef horft er til þess hvernig málið er vaxið og hversu alvarleg brotin voru. „Það er því ljóst að verði hann sakfelldur fyrir þessi brot að þá verður látið reyna á bótarétt og það er líka ljóst að þeir sem bera ábyrgð á þessum málum innan borgarinnar verða einnig að axla ábyrgð.“
Sjálfur segist Sævar ekki kaupa þá skýringu að einhver starfsmaður í símsvörun Reykjavíkurborgar hafi tekið niður ábendinguna og ekki sent hana áfram.
„Það hlýtur að hafa verið þannig að símtalið hafi verið sent áfram til Barnaverndar. Nú ef það var ekki gert, þá eru það mistök af því að verkferlarnir eru ekki í lagi. Þegar svona mál eiga í hlut þá verða menn hins vegar að axla ábyrgð,“ segir Sævar. Það geti þeir gert persónulega með því víkja störfum, eða þá að dómstólaleiðin sé farinn þar sem að að menn séu skaðabótaskildir fyrir mistökunum.