Leggja fram nýtt frumvarp um strandveiðar

Strandveiðar úti af Tjörnesi. Mánáreyjar í baksýn. Mynd úr safni.
Strandveiðar úti af Tjörnesi. Mánáreyjar í baksýn. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Ægisson

Heimilt verður að stunda strandveiðar í tólf daga í hverjum mánuði frá maí og fram í ágúst á þessu ári, nái nýtt frumvarp fram að ganga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

Atvinnuveganefnd þingsins leggur frumvarpið fram og er gert ráð fyrir að það verði að lögum áður en strandveiðar hefjast 2. maí.

Um er að ræða mikla breytingu frá fyrra fyrirkomulagi, þar sem öllum bátum á strandveiðum eru með þessu tryggðir tólf róðrardagar í maí, júní og júlí. Áfram verði þó óheimilt að stunda veiðar föstudaga, laugardaga og sunnudaga, ásamt tilteknum rauðum dögum eins og gilt hefur um strandveiðarnar.

Afli strandveiðibáta vigtaður á Norðurfirði á Ströndum.
Afli strandveiðibáta vigtaður á Norðurfirði á Ströndum. mbl.is/Árni Sæberg

Veiðarnar komið í veg fyrir skort

Í greinargerð með frumvarpinu segir að veiðarnar hafi gengið vel og reynst heilladrjúg nýbreytni innan stjórnkerfis fiskveiða. Frá árinu 2010 hafi að meðaltali 674 bátar stundað strandveiðar ár hvert.

„Afli strandveiðibáta er í flestum tilfellum seldur á fiskmarkaði. Á síðari árum hefur afli og aflameðferð verið til mikillar fyrirmyndar sem marka má af því að afli strandveiðibáta hefur komið í veg fyrir skort á ferskum fiski til útflutnings á þeim tíma sem þær eru stundaðar og minna er um úthald stærri skipa og báta vegna sumarleyfa,“ segir í greinargerðinni.

„Fiskur strandveiðibáta hefur reynst góður og hefur því reynst verðmæt útflutningsvara. Þá hafa strandveiðarnar falið í sér möguleika til fiskveiða í atvinnuskyni án þess að greiða þurfi aflahlutdeildarhöfum gjald fyrir veiðiheimildir. Þannig hafa strandveiðar verið mikilvægur þáttur í því að koma til móts við sjónarmið þeirra sem telja að þörf sé breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu í þá veru að tryggja almenningi ríkari hlutdeild í veiðum.“

Dragi úr slysahættu

Þá er bent á að breytingunni sé einnig ætlað að auka öryggi sjómanna á strandveiðibátum.

Sá ágalli hefur verið á gildandi fyrirkomulagi að veiðarnar hafa verið það sem kallað er „ólympískar“ sem birtist í því að sjómenn hafa keppst um að ná þeim afla sem heimilt er á sem skemmstum tíma og áður en aflaheimildin yrði upp urin. Þetta hefur leitt til þess að stundum hafa menn róið á minni bátum þótt ekki viðraði til þess og fylgir því að sjálfsögðu aukin slysahætta. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til ætti að draga mjög úr hvata til „ólympískrar“ sóknar og þar með slysahættu.“

Enn fremur er í frumvarpinu ákvæði sem heimilar strandveiðibátum að landa ufsa sem VS-afla. Sá afli mun þá ekki teljast til viðmiðunar inn í hámarksafla til strandveiða.

mbl.is