Helga Sörens og Mano Mandour hafa opnað veitingastaðinn Mano´s á Alicante á Spáni. Þar með er sagan ekki öll sögð því Helga er matreiðslumaður og Mano er viðskiptafræðingur með ómældan áhuga á pítsugerð.
Hefur hann meðal annars búið á Ítalíu þar sem hann lærði pítsugerð og starfaði við pítsugerð milli þess sem hann keppti í sundi, en hann er jafnframt fyrrverandi atvinnumaður í sundi. Leið hans lá til Noregs þar sem hann og Helga kynntust en þau eru í dag gift.
„Við komum upphaflega til Spánar til að eyða fæðingarorlofinu hér. Við hjónin erum bæði kokkar og þetta fæðingarorlof endaði á að vinda aðeins upp á sig. Við fengum íbúð á síðustu stundu í bæ sem ég vissi ekki að væri til fyrr en ég flutti í hann,“ segir Helga, spurð um tildrög þess að þau opnuðu Mano´s. „Svo voru nokkrar raddir sem bentu okkur á Quesada. Við könnuðum málið en létum kyrrt liggja í svolítinn tíma en tékkuðum aftur í desember og þá datt þetta eiginlega upp í hendurnar á okkur. Húsnæðið var fokhelt og glænýtt.“
Helga segir marga Íslendinga heimsækja Orihuela Costa og Torrevieja en þau séu staðsett í Ciudad Quesada sem sé í 15 mínútna fjarlægð frá Torrevieja og 40 mínútur frá Alicante.
Viðtökurnar hafa verið gríðarlega góðar og fólk er greinilega ánægt að fá okkur og það sem við höfum upp á að bjóða,“ en veitingastaðurinn býður upp á svokallað heilsu-skyndifæði ef svo má að orði komast. Pítsur, vefjur, salöt, djúsar, brauð og kaffi eru á matseðlinum og greinilegt að hér eru tveir meistarakokkar á ferð.