„Þetta er galið fyrirkomulag“

Axel segir að víkja þurfi frá ríkjandi fyrirkomulagi.
Axel segir að víkja þurfi frá ríkjandi fyrirkomulagi. mbl.is/Ófeigur

„Það er baga­leg­ur hringlanda­hátt­ur í þessu fyr­ir­komu­lagi um ákvörðun fjölda daga,“ seg­ir Axel Helga­son, formaður Lands­sam­bands smá­báta­eig­enda, spurður um fyr­ir­hugaða reglu­gerð at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­is­ins, þar sem leyfi báta til grá­sleppu­veiða verða lengd úr 32 dög­um í 44 daga.

Áður hef­ur vertíðin verið lengd úr 20 dög­um í 32 daga.

Lít­ur til veiðistjórn­un­ar á Græn­landi

„Það hníga öll rök gegn þessu fyr­ir­komu­lagi, að veiðarn­ar séu fram­lengd­ar með þetta stutt­um fyr­ir­vara og að sjó­menn geti þannig ekki skipu­lagt sig bet­ur, til dæm­is hvað varðar mannaráðning­ar,“ seg­ir Axel í sam­tali við 200 míl­ur.

Full­trú­ar Lands­sam­bands smá­báta­eig­enda funduðu með at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­inu í gær, og seg­ist Axel hafa lagt á það áherslu á fund­in­um að vikið yrði frá þessu fyr­ir­komu­lagi.

„Þetta er galið fyr­ir­komu­lag,“ seg­ir hann og vís­ar meðal ann­ars til þess að í Græn­landi viti menn hversu lengi megi veiða grá­sleppu í upp­hafi vertíðar, þar sem miðað sé við veiðireynslu þriggja ára þar á und­an. Sú veiðistjórn­un hafi fengið eft­ir­sótta vott­un MSC - Mar­ine Stew­ards­hip Council.

„Það er eng­in ástæða til að skoða ekki hvort við get­um tekið upp sama fyr­ir­komu­lag.“

Grásleppa skorin á Húsavík. Mynd úr safni.
Grá­sleppa skor­in á Húsa­vík. Mynd úr safni. mbl.is/​Hafþór

Reikna ráðgjöf út frá þúsund grá­slepp­um

Þá bend­ir hann á að skoða þurfi þá aðferðafræði Haf­rann­sókna­stofn­un­ar, að nota þá grá­sleppu sem veiðist í vorrall­inu sem grund­völl veiðiráðgjaf­ar. Grá­sleppa sé upp­sjáv­ar­fisk­ur og í rall­inu sé togað á 600 stöðvum í land­helg­inni, sem í ár hafi skilaði tæp­lega 1.000 grá­slepp­um.

Til að setja þá tölu í sam­hengi megi geta þess að þess­ar þúsund grá­slepp­ur séu um það bil þrjú tonn. Út frá þeim sé svo reiknuð ráðgjöf upp á tæp 5.500 tonn.

mbl.is