Þurftu að afhenda fimmtíu Marlboro-karton

Breki og Páll Pálsson á siglingu.
Breki og Páll Pálsson á siglingu.

Svona nokkuð er mjög óþægilegt og auðvitað algjörlega framandi fyrir okkur að upplifa. Lóðsar, lóðsbátar og yfirleitt allir sem við þurftum að hafa samskipti við vildu Malboro-karton í vasann til að við fengjum að halda áfram óáreittir. Stærsti skammturinn á einum stað var fimmtán sígarettukarton.“

Þetta segir Magnús Ríkharðsson, skipstjóri á togaranum Breka VE, í samtali við fréttavefinn Eyjar.net, en Breki og Páll Pálsson ÍS eru nú komnir út á Miðjarðarhaf eftir siglingu um Súesskurð. Á ferð sinni um skurðinn rákust skipverjarnir á mikla spillingu og segir Magnús að skipverjum hafi meðal annars verið hótað sekt upp á sex til sjö þúsund bandaríkjadali, létu þeir ekki af hendi áðurnefnd fimmtán karton.

„Meira að segja læknir, sem gaf út heilbrigðisvottorð, afgreiddi málið ekki nema gegn Marlboro. Þegar hann hafði fengið kartonin sín máttum við flagga að allt væri í stakasta lagi í heilbrigðismálum um borð!

Malboro-faraldurinn hófst á Sri Lanka og magnaðist í Súesskurðinum. Við afhentum að minnsta kosti fimmtíu karton til að komast gegnum Súeseiðið.“

Áður hefur áhöfnin þurft að sigla á slóðum þar sem sjórán þykja ekki fátíð.

„Erfiðasti farartálminn er að baki, nú erum við komnir í evrópskt veðurfar og evrópskt umhverfi í öllum skilningi. Við stefnum á Möltu og áætlum að koma þangað að morgni þriðjudags 24. apríl. Við eigum þriðjung leiðarinnar eftir. Núna eru nákvæmlega 3.360 sjómílur til Vestmannaeyja af alls 11.300 mílna siglingarleið frá Kína til Íslands,“ segir Magnús í samtali við Eyjar.net.

mbl.is