Þurftu að afhenda fimmtíu Marlboro-karton

Breki og Páll Pálsson á siglingu.
Breki og Páll Pálsson á siglingu.

Svona nokkuð er mjög óþægi­legt og auðvitað al­gjör­lega fram­andi fyr­ir okk­ur að upp­lifa. Lóðsar, lóðsbát­ar og yf­ir­leitt all­ir sem við þurft­um að hafa sam­skipti við vildu Mal­boro-kart­on í vas­ann til að við fengj­um að halda áfram óáreitt­ir. Stærsti skammt­ur­inn á ein­um stað var fimmtán síga­rettukart­on.“

Þetta seg­ir Magnús Rík­h­arðsson, skip­stjóri á tog­ar­an­um Breka VE, í sam­tali við frétta­vef­inn Eyj­ar.net, en Breki og Páll Páls­son ÍS eru nú komn­ir út á Miðjarðar­haf eft­ir sigl­ingu um Súesskurð. Á ferð sinni um skurðinn rák­ust skip­verj­arn­ir á mikla spill­ingu og seg­ir Magnús að skip­verj­um hafi meðal ann­ars verið hótað sekt upp á sex til sjö þúsund banda­ríkja­dali, létu þeir ekki af hendi áður­nefnd fimmtán kart­on.

„Meira að segja lækn­ir, sem gaf út heil­brigðis­vott­orð, af­greiddi málið ekki nema gegn Marl­boro. Þegar hann hafði fengið kart­on­in sín mátt­um við flagga að allt væri í stak­asta lagi í heil­brigðismál­um um borð!

Mal­boro-far­ald­ur­inn hófst á Sri Lanka og magnaðist í Súesskurðinum. Við af­hent­um að minnsta kosti fimm­tíu kart­on til að kom­ast gegn­um Súeseiðið.“

Áður hef­ur áhöfn­in þurft að sigla á slóðum þar sem sjórán þykja ekki fátíð.

„Erfiðasti far­ar­tálm­inn er að baki, nú erum við komn­ir í evr­ópskt veðurfar og evr­ópskt um­hverfi í öll­um skiln­ingi. Við stefn­um á Möltu og áætl­um að koma þangað að morgni þriðju­dags 24. apríl. Við eig­um þriðjung leiðar­inn­ar eft­ir. Núna eru ná­kvæm­lega 3.360 sjó­míl­ur til Vest­manna­eyja af alls 11.300 mílna sigl­ing­ar­leið frá Kína til Íslands,“ seg­ir Magnús í sam­tali við Eyj­ar.net.

mbl.is