Frumvarp atvinnuveganefndar um breytingar á fyrirkomulagi strandveiða var samþykkt á Alþingi síðdegis í dag. Alls féllu 36 atkvæði með frumvarpinu en tveir þingmenn greiddu atkvæði gegn því. Átta þingmenn greiddu ekki atkvæði.
Eins og 200 mílur hafa fjallað um heimilar frumvarpið tólf veiðidaga í hverjum mánuði frá maí og fram í ágúst. Þá ljær frumvarpið sjávarútvegsráðherra heimild til að stöðva strandveiðar, en hingað til hefur verið kveðið á um að Fiskistofa skuli stöðva veiðarnar.
Þá var álit nefndarinnar um breytingartillögu samþykkt með 36 atkvæðum gegn tíu, en í því var lagt til að hámarksaflamagn ufsa á komandi strandveiðatímabili yrði 700 tonn.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Landssamband smábáteigenda hafa verið ósammála um ágæti frumvarpsins.