Sameinuð eftir fjögurra ára aðskilnað

Krummi hefur hjálpað Auði í baráttu sinni gegn þunglyndi og …
Krummi hefur hjálpað Auði í baráttu sinni gegn þunglyndi og hún grét af gleði við endurfundina í dag eftur tæpan fjögurra ára aðskilnað. mbl.is/Árni Sæberg

Kött­ur­inn Krummi flutti í Selja­hverfið ásamt eig­anda sín­um, Auði Krist­ínu Gunn­ars­dótt­ur, í des­em­ber 2014. Eitt kvöldið þegar hann var að kynna sér aðstæður í nýja hverf­inu gerði mikið óveður. Hvort það teng­ist því að Krummi skilaði sér ekki heim um nótt­ina er ekki full­vitað en Auður var búin að gefa upp alla von um að finna hann. Í gær fékk hún svo þær gleðifrétt­ir að Krummi væri fund­inn, tæp­um fjór­um árum eft­ir að hann fór að heim­an. 

„Ég var að læra und­ir próf þegar pabbi minn hring­ir í mig og ég bara al­gjör­lega missi vitið. Ég vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við og gat ekki hætt að gráta,“ seg­ir Auður í sam­tali við mbl.is.

Örmerk­ing­in skipti sköp­um

Sím­talið sem pabbi henn­ar fékk var frá talskonu dýra­vernd­ar­fé­lags­ins Villikatta. Fé­lagið hafði fengið ábend­ingu um villikött í Selja­hverf­inu frá manni sem hafði gefið hon­um að éta alla morgna, en var sann­færður að um villikött væri að ræða þar sem hann var svo fæl­inn.

Starfs­menn Villikatta settu upp felli­búr og þar var Krummi bú­inn að koma sér vel fyr­ir. Svo kom í ljós að hann er ör­merkt­ur og þannig var hægt að hafa uppi á eig­end­un­um. „Það sýn­ir hversu mik­il­vægt það er að ör­merkja gælu­dýr­in sín, hvort sem þau finn­ast lífs eða liðin,“ seg­ir Auður. 

Gleðifrétt­ir í skugga frá­falls heim­iliskatt­anna

„Ég get ekki lýst því hversu ham­ingju­söm við erum. Við erum ný­bú­in að missa hinar tvær kis­urn­ar sem við átt­um og heim­ilið hef­ur verið katt­ar­laust í mánuð,“ seg­ir Auður sem er aug­ljós­lega mik­ill dýra­vin­ur.

Krummi kom inn í líf fjöl­skyld­unn­ar fyr­ir sjö árum. „Hann hef­ur alltaf verið kött­ur­inn minn,“ seg­ir Auður. Það kom því ekki annað til greina þegar Auður flutti að heim­an fyr­ir tæp­um fjór­um árum að Krummi myndi fylgja henni. Bú­set­an á nýja heim­il­inu varð hins veg­ar stutt þar sem Krummi týnd­ist tveim­ur vik­um eft­ir flutn­inga.

„Það var rosa­legt óveður úti, mik­ill snjóstorm­ur, og við tók­um ekki eft­ir því fyrr en dag­inn eft­ir að hann var horf­inn,“ seg­ir Auður, sem ásamt mömmu sinni, Lindu Linn­et Hilm­ars­dótt­ur, aug­lýsti eft­ir Krumma á sam­fé­lags­miðlum. Þrátt fyr­ir mikla leit skilaði hún eng­um ár­angri en mæðgurn­ar héldu áfram að deila mynd­um af Krumma á leit­arsíðum á Face­book. Síðasta færsl­an er frá því í des­em­ber 2016.

Full­viss um að Krummi bjargaði sér

Eft­ir að hafa leitað að Krumma í tvö ár ákvað Auður að sætta sig við að Krummi myndi finn­ast ef hann vildi láta finna sig. „Hann nær alltaf að bjarga sér og ég var al­veg full­viss um að hann væri bú­inn að finna sér ein­hvern til að gefa sér að borða eða væri jafn­vel að veiða sér til mat­ar. Hann var alltaf að koma með gjaf­ir til mín, mýs og fugla, þegar ég var yngri.“

Fagnaðar­fund­ir áttu sér svo stað í há­deg­inu í dag þegar Auður fór ásamt pabba sín­um, Gunn­ari Guðmundi Ólafs­syni, og syst­ur til að sækja Krumma á heim­ili stjórn­ar­konu Villikatta.

„Hún tók al­veg rosa­lega vel á móti okk­ur og fór með okk­ur inn í bíl­skúr­inn þar sem hann var í stóru hunda­búri. Krummi kom strax til okk­ar og nuddaði sér í hálsa­kotið á manni, al­veg eins og áður fyrr. Það var bara eins og ekk­ert hefði gerst, hann þekkti okk­ur strax,“ seg­ir Auður.  

Mun búa hjá ömmu og afa

Auður er flutt í Vest­ur­bæ­inn og býr í leigu­íbúð þar sem óheim­ilt er að vera með gælu­dýr. Hún harm­ar það mjög að geta ekki haft Krumma hjá sér, en hann verður í góðu yf­ir­læti á æsku­heim­il­inu. „Hann fer bein­ustu leið til mömmu og pabba og eins og pabbi sagði þá verður hann hjá ömmu og afa.“

Krummi unir sér vel á heima­slóðunum og hef­ur ekki hætt að mjálma síðan hann kom aft­ur heim að sögn Auðar. „Við höld­um að hann sé líka að leita að hinum kis­un­um. En hann er strax bú­inn að koma sér vel fyr­ir og borðar mikið.“

Krummi mun koma til með að búa á æskuheimili sínu, …
Krummi mun koma til með að búa á æsku­heim­ili sínu, hjá for­eldr­um Auðar. Hér má sjá Auði og föður henn­ar, Gunn­ar Guðmund Ólafs­son, þegar þau sóttu Krumma í dag. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Kett­irn­ir hjálpa í bar­átt­unni gegn þung­lyndi

Auður seg­ist ekki geta ímyndað sér lífið án dýra og að Krummi hafi komið eins og kallaður svona skömmu eft­ir að heim­iliskis­urn­ar tvær þurftu að kveðja þenn­an heim. Dýra­haldið hef­ur einnig hjálpað henni í bar­áttu sinni gegn kvíða og þung­lyndi á unglings­ár­un­um.

„Læðan sem ég eignaðist fyrst, sem dó fyr­ir mánuði síðan, elti mig alltaf í skól­ann og vakti mig með því að bíta mig í tærn­ar. Fyr­ir mann­eskju eins og mig sem hef­ur verið að glíma við mikið þung­lyndi og ein­mana­leika á yngri árum þá mun­ar svo miklu að fá eitt svona gælu­dýr til að lífga upp á dag­inn. Þetta eru svo mikl­ir gleðigjaf­ar,“ seg­ir Auður.

Henni finnst vissu­lega leiðin­legt að koma heim í tóma íbúð, en það gleym­ist núna þar sem hún veit af Krumma á heim­ili for­eldra sinna. „Ég mun alltaf hafa eitt­hvað gælu­dýr ná­lægt mér.“

mbl.is