Finna fyrir gerjun í sjávarútvegi

Sjávarútvegssýningin í Brussel er sú stærsta í heimi og laðar …
Sjávarútvegssýningin í Brussel er sú stærsta í heimi og laðar að gesti hvaðanæva úr heiminum. Á fjórða tug íslenskra fyrirtækja tók þátt að þessu sinni. Ljósmynd/Íslandsstofa

„Sjávarútvegssýningin í Brussel er eins og réttir áður fyrr. Menn koma saman og spjalla. Það er stór hluti af þessu,“ segir Kristján Hallvarðsson, sölustjóri Völku.

Stærsta sjávarútvegssýning í heimi fór fram í Brussel, dagana 24.-26. apríl. Hátt á fjórða tug íslenskra fyrirtækja var með bása á sýningunni.

Sýningin er tvískipt, annars vegar fyrir sjávarafurðir og hins vegar tæknisýning með áherslu á vélar og tæki. Á þjóðarbásunum voru 26 fyrirtæki með aðstöðu og eru þetta að miklu leyti sömu fyrirtækin ár frá ári. Marel, HB Grandi, Iceland Seafood, Sæplast og Samherji voru með eigin bása á sýningunni.

Jón Birgir Gunnarsson, sölu- og markaðsstjóri Skagans 3x, segir að sýningin í ár hafi verið feikilega flott. „Það er kraftur og gleði í sjávarútvegi. Sama hvar maður drepur niður fæti eru allir á því að það sé að eiga sér stað gerjun. Við fengum mikla athygli frá lykilviðskiptavinum um allan heim og erum að upplifa það að við erum að komast á kortið. Stóru aðilarnir eru að koma til okkur, ekki bara við að fara til þeirra,“ segir hann.

Skaginn 3X bauð gestum í bás fyrirtækisins í þrívíddarheim þar …
Skaginn 3X bauð gestum í bás fyrirtækisins í þrívíddarheim þar sem hægt var að virða fyrir sér nýja uppsjávarvinnslu færeysku útgerðarinnar Varðin Pelagic. Ljósmynd/Skaginn 3X

Að hans sögn hefur verið góð stígandi í söluábendingum hjá fyrirtækinu. „Það komu stjórnendur norskra fyrirtækja til okkar og sögðu hreinlega að Íslendingar væru greinilega betri í vöruþróun og tækni, og því þyrftu þeir að horfa meira til Íslands en Noregs í leit að tækni. Það var gaman að heyra þetta,“ segir Jón Birgir. 

Bylgja fjárfestinga

Spurður hvers vegna geirinn sé í gerjun um þessar mundir segir hann erfitt að segja. Það komi í bylgjum. „Það safnast upp fjárfestingarþörf, síðan kemur bylgja af fjárfestingum og við erum í slíkri bylgju núna.“

Að hans sögn er þessi þróun ekki bundin við Ísland, þótt hún sé sérstaklega áberandi hér varðandi fjárfestingar í skipum. „Við erum að njóta ávaxtanna af mikilli vöruþróun í töluverðan tíma. Undanfarin eitt, tvö ár höfum við lagt kapp á sölu- og markaðsmál og það er að skila sér.“

Að sjálfsögðu voru Íslendingarnir stoltir af landsliðinu okkar í knattspyrnu …
Að sjálfsögðu voru Íslendingarnir stoltir af landsliðinu okkar í knattspyrnu sem er að fara keppa á heimsmeistaramótinu í Rússlandi í júní í sumar. Ljósmynd/Skaginn 3X

Nánari umfjöllun er að finna í ViðskiptaMogganum í dag.

mbl.is