„Ég er kominn heim!“ segir Hrafn jökulsson í stöðufærslu á Facebook-síðu sinni. Hann segist hafa fengið tilkynningu frá Þjóðskrá Íslands um að lögheimili hans hafi verið flutt til Árneshrepps.
Í samtali við mbl.is segist Hrafn mjög þakklátur fyrir skjót viðbrögð og fagleg vinnubrögð Þjóðskrár Íslands í máli hans, og að hann sé feginn að geta farið að einbeita sér að öðru en að sannfæra fólk um að hann eigi heima á heimili sínu.
Áður hafði tilkynningu Hrafns um lögheimilisbreytingu til Þjóðskrár verið hafnað. Hann sendi í kjölfarið beiðni um leiðréttingu með tilheyrandi gögnum til þess að sýna fram á búsetu sína.
Í gær var sagt frá að niðurstaða hafi fengist í 15 af 18 tilkynningum um lögheimilisflutning í Árneshrepp sem gerðar voru athugasemdir við. Með tilliti til niðurstöðu í máli Hrafns er staðan því þannig að 12 lögheimilisskráningum í hreppinn hefur verið hafnað, tvær samþykktar og ein dregin tilbaka.