Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, segir í samtali við mbl.is að tillaga meirihluta nefndarinnar um veiðigjöld hafi ekki verið rædd á fundi nefndarinnar í dag. Hún segir ekki ljóst hvert framhaldið verður þar sem Alþingi samþykkti ekki að veita málinu flýtimeðferð í gær.
Meirihluti Alþingis samþykkti í gær að taka tillöguna á dagskrá, en þó svo að málið hafi komist á dagskrá hefði þurft samþykki 2/3 þingmanna til að veita málinu forgang. Þar sem ekki fékkst stuðningur 2/3 þingmanna fyrir slíku, kemst tillagan ekki á dagskrá fyrr en eftir helgi.
Á mánudag fara fram eldhúsdagsumræður sem hefðbundið séð fara fram við þinglok, en að sögn Lilju Rafneyjar á eftir að koma í ljós hvort þinghald verði framlengt.
Í gær sagði Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, við mbl.is að núgildandi heimild til innheimtu veiðigjalda renni út í sumar. Samþykki Alþingi ekki nýja heimild fyrir þinglok, mun næsta fiskveiðiár hefjast án heimildar til innheimtu veiðigjalda.