Engin rök fyrir þriggja milljarða lækkun

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, segir mörg lítil fyrirtæki á …
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, segir mörg lítil fyrirtæki á landsbyggðinni í vanda, ekki bara sjávarútvegsfyrirtækin. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Það eru eng­in rök fyr­ir því að lækka gjöld á sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki um þrjá millj­arða þegar fé vant­ar í önn­ur verk­efni. Þetta sagði Hanna Katrín Friðriks­son, þing­flokks­formaður Viðreisn­ar, í þætt­in­um Víg­lín­unni á Stöð 2 í há­deg­inu.

Þau rök séu notuð að lít­il sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki úti á landi séu í vanda. „Það er lík­lega rétt,“ sagði Hanna Katrín. „En það eru mörg lít­il fyr­ir­tæki á lands­byggðinni í vanda, ekki bara sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæk­in og ekki eru stjórn­völd að leggja sig fram um að hjálpa þeim.“

Sagði hún ekk­ert mál að koma með sér­tæk­ar lausn­ir fyr­ir lít­il fyr­ir­tæki í vanda á meðan að veiðigjalds­lög­gjöf­in sé end­ur­skoðuð.

Ætlar ekki að af­saka seina­gang

Kristján Þór Júlí­us­son sjáv­ar­út­vegs­ráðherra sagði lækk­un­ina nema 1,7 millj­örðum nettó, ekki þrem­ur millj­örðum og að erfitt væri að koma breyt­ingu á varðandi lög um sjáv­ar­út­veg­inn. „Það er sama hvernig stjórn­ar­mynst­ur er, hver ein­asta breyt­ing er mjög um­deild,“ sagði hann. „Það er þó ekki til fyr­ir­mynd­ar að mál komi svo seint inn og ég ætla ekki að reyna að af­saka það.“

For­veri hans í embætti, Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, þingmaður Viðreisn­ar, hafi látið vinna skýrslu um málið, sem veiðigjalda­lög­gjöf­in byggi m.a. á. Breyt­ing­ar séu til komn­ar af því að kerfið sé brogað. „Og við vilj­um nálg­ast álagn­ingu í tíma og það er vilji til að létta und­ir með smærri út­gerðum,“ sagði Kristján Þór.

Skýrsl­an sýni að það séu ákveðin fyr­ir­tæki í vanda.

Því svaraði Hanna Katrín til að gagn­rýni­vert væri að farið væri í þess­ar aðgerðir á þessu ári, en ekki þegar bet­ur áraði.

„Ég trúi því ekki að þú sért raun­veru­lega þeirri skoðunar að stór sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki eins og HB Grandi þurfi á aðstoð að halda,“ sagði hún. „Þetta er flöt lækk­un, ekki sér­tæk aðgerð.“

 „Við ræðum ekki svona mál í fund­ar­stjórn for­seta í fjóra tíma,“ svaraði Kristján Þór þá og vísaði þar til þess hve lang­an tíma umræða um málið tók í þing­inu á fimmtu­dag.

Spurður hvort það sé ekki ein­fald­lega mik­il andstaða hjá Sjálf­stæðis­flokkn­um við veiðigjöld, sem séu í raun auka skatt­ur á sjáv­ar­út­veg­inn, sagði hann svo ekki vera.

„Ég tel sam­stöðu um í þjóðfé­lag­inu að það sé gert,“ sagði ráðherra. „Það hef­ur hins veg­ar ekki verið gert í ann­arri grein og [við] erum enn að þrasa um hversu hátt eða lágt það eigi að vera.“

mbl.is