„Þarna er fuglinn,“ sagði kennarinn við nemendur sína sem stóðu á dekki björgunarskipsins Ásgríms S. Björnssonar, sem skreið út Sundin við Reykjavík. Allt stóð þetta heima; í vestri yfir Engey kom TF GNÁ og fór hratt yfir. Lækkaði flugið og var brátt yfir skipinu þar sem um borð var fólk fært í flestan sjó.
Allir voru komnir í vígalega galla og tilbúnir í svolitla æfingu á bláköldum veruleika. Sjómennskan er ekkert grín, var einhverju sinni sungið í slagara um frækna hafsins hetju. Slíkar eru til enn, en hafa þó kannski aðra ásýnd og stíl en var fyrr á tíð. Og sem betur fer eru þeir tímar liðnir að hafið taki á hverju ári fjölda mannslífa; að skip farist eða um borð verði slys þannig að fólk slasist eða láti lífið.
Sjómenn eiga allt sitt undir því að öryggismálin séu í lagi og því að geta brugðist við. Langt er síðan öllum sem stunda sjóinn til lengri tíma var gert skylt að sækja námskeið við Slysavarnaskóla sjómanna og í seinni tíð sækja um 2.500 manns á ári þennan skóla, sem hefur sannað gildi sitt fyrir margt löngu.
Sjá umfjöllun um nám við Slysavarnaskóla sjómanna í Morgunblaðinu í dag.