Sjófuglar fullir af plasti

Kafari að störfum við eyjuna Lord Howe.
Kafari að störfum við eyjuna Lord Howe. AFP

Nýtt mynd­efni sem BBC hef­ur aflað sýn­ir hræðileg­ar af­leiðing­ar plast­meng­un­ar í haf­inu á sjó­fugla. Fugl­ar á hinni af­skekktu eyju Lord Howe eru að svelta og verður fjallað um málið í heim­ild­arþátt­un­um Drown­ing in Plastic á BBC One. Í maga fugl­anna fannst svo mikið plast að ekk­ert pláss var fyr­ir mat, seg­ir í frétt á vef BBC um málið.

BBC er meðal þeirra fjöl­miðla sem fjalla nú ýt­ar­lega um þá miklu meng­un sem er í haf­inu og hættu sem líf­ríki heims­ins staf­ar af henni.

Eyj­an Lord Howe er und­an strönd­um Ástr­al­íu. Þar eru líf­fræðing­ar að störf­um við það að reyna að bjarga sjó­fugl­un­um. Líf­fræðing­ur­inn Jenni­fer Lavers bend­ir á að sjó­fugl­arn­ir éti nán­ast hvað sem er og þegar sjór­inn er full­ur af plasti „veiði“ þeir það handa ung­um sín­um. 

Líf­fræðing­arn­ir hafa verið að hand­sama fugl­ana er þeir fara úr hreiðrum sín­um og skola út maga þeirra til að reyna að bjarga þeim. Aðferðin skaðar ekki fugl­inn.

Fréttamaður­inn Liz Bonn­in, sem er um­sjón­ar­maður heim­ild­arþátt­anna, seg­ir þetta eitt það erfiðasta sem hún hafi upp­lifað á ferli sín­um. „Við sáum um 90 plast­hluti koma upp úr ein­um unga annað kvöldið okk­ar þarna,“ út­skýr­ir hún. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina