Rusl í tonnatali hreinsað á Hornströndum

Frá hreinsunarleiðangri helgarinnar.
Frá hreinsunarleiðangri helgarinnar. Ljósmynd/Gauti Geirsson

Þrjá­tíu og sex tóku þátt í átak­inu Hreins­um Hornstrand­ir um helg­ina og tíndu fleiri tonn af rusli úr fjör­unni í Bol­unga­vík. Um fimmtu hreins­un­ina var að ræða, en Gauti Geirs­son seg­ir mun meira rusl hafa safn­ast í ár en und­an­farið.

„Þetta gekk ótrú­lega vel. Fram­an af vor­um við ekki al­veg viss um hvernig myndi ræt­ast úr veðrinu og þetta er löng sigl­ing fyr­ir opnu hafi. Á laug­ar­deg­in­um var frá­bært veður og við náðum að hreinsa ótrú­legt magn af rusli. Þetta er það mesta sem við höf­um séð á svona litlu svæði.“

Varðskip Land­helg­is­gæsl­unn­ar hef­ur mætt á staðinn og sótt ruslið eft­ir til­tekt­ina und­an­far­in þrjú ár en í þetta sinn þurfti það að sinna út­kalli. „Við vit­um alltaf af því að það geti gerst að varðskipið sé kallað til en plan B var virkjað svo við löbbuðum til baka í Jök­ul­fjörðinn þar sem við vor­um sótt.“

Gauti seg­ir að farið verði að sækja ruslið við fyrsta tæki­færi og það flutt á Ísa­fjörð þar sem það verður vigtað og flokkað.  Þá kem­ur í ljós ná­kvæm­lega um hve mörg tonn af rusli er að ræða, en Gauti seg­ir að und­an­far­in ár hafi allt að fimm tonn verið tínd en að um tals­vert meira magn hafi verið að ræða í þetta sinn.

Gauti vill nota tæki­færið og þakka öll­um þeim styrkt­araðilum sem gera verk­efnið mögu­legt, en þeir eru Land­helg­is­gæsl­an, Um­hverf­is­stofn­un, Ísa­fjarðarbær, Reim­ar Vil­mund­ar­son, Sjó­ferðir Haf­steins og Kiddýj­ar, Bor­ea Advent­ur­es Ice­land, Gámaþjón­usta Vest­fjarða, Vest­ur­Verk, Aur­ora Arktika, Hót­el Ísa­fjörður og Vest­ur­ferðir.

mbl.is