Umfang tjóns óljóst að svo stöddu

Byrjað er að rífa það sem skemmt er í húsinu.
Byrjað er að rífa það sem skemmt er í húsinu. mbl.is/Sigmundur G. Sigurgeirsson

„Húsið er illa farið og þarna er mjög mikið af búnaði,“ seg­ir Jón Kjart­an Jóns­son, fram­kvæmda­stjóri Íslands­bleikju, en hús­næði þeirra við Núpa í Ölfusi fór illa í bruna í nótt. Að svo stöddu er óljóst ná­kvæm­lega hve mikið tjónið er.

Jón seg­ir mik­il­væg­ast af öllu að húsið hafi verið mann­laust þegar eld­ur­inn kom upp. Þá virðist sem tek­ist hafi að bjarga stærst­um hluta fisks­ins sem var í hús­inu.

„Við byrj­um á að rífa burt það sem er skemmt og hættu­legt til þess að gera vett­vang­inn ör­ugg­an fyr­ir fólk. Svo för­um við að vinna í að byggja upp,“ seg­ir Jón og ger­ir ráð fyr­ir að sú vinna hefj­ist í kvöld svo hægt sé að kom­ast sem fyrst að þeim fiski sem þar er und­ir.

Til­kynn­ing barst um eld­inn um klukk­an hálfeitt í nótt og unnu þrjá­tíu slökkviliðsmenn að því að slökkva hann. Tókst þeim að halda eld­in­um þannig í skefj­um að hann breidd­ist ekki út í önn­ur mann­virki og var búð að slökkva eld­inn á fjórða tím­an­um. Þak bygg­ing­ar­inn­ar hrundi að hluta til en að öðru leyti stend­ur húsið enn.

Slökkvilið af­henti lög­reglu vett­vang­inn í morg­un og gekk rann­sókn­in hratt fyr­ir sig. Eld­ur­inn mun hafa komið upp við eða í raf­mótor við fóður­gjafa­búnað. Hald var lagt á hluta búnaðar­ins til nán­ari rann­sókn­ar.

Upp­fært kl. 20:10: Byrjað er að rífa það sem ónýtt er í hús­inu eins og sjá má af ljós­mynd­um frá frétta­rit­ara mbl.is á staðnum.

mbl.is/​Sig­mund­ur G. Sig­ur­geirs­son
mbl.is/​Sig­mund­ur G. Sig­ur­geirs­son
mbl.is