„Þetta er eins og að próflaus maður keyri bíl alveg átölulaust. Það má hver sem er keyra bíl en maður þarf þó próf til að keyra.“ Þetta sagði Gunnlaugur Stefánsson, formaður Veiðifélags Breiðdæla, um laxeldi sem viðgengst nú í opnum sjókvíum á vegum Fiskeldis Austfjarða ehf. í Berufirði.
Veiðifélag Breiðdæla hélt aðalfund sinn í Eyjum í Breiðdal á föstudaginn síðastliðinn og sendi í kjölfarið frá sér kröftug mótmæli gegn eldisiðju Fiskeldis Austfjarða og Laxár Fiskeldis ehf. Jafnframt skoraði félagið á stjórnvöld að grípa til aðgerða gegn þeim og hafa sjónarmið um náttúruvernd að leiðarljósi.
Í ályktun veiðifélagsins kemur fram að eldisiðjan í Berufirði starfi án stöðvarskírteinis auk þess sem búnaður hennar og umgjörð byggist á undanþágum frá gömlum reglum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.