„Hetjuhundur“ bjargaði eiganda sínum

Todd var mjög bólginn eftir bit skröltormsins.
Todd var mjög bólginn eftir bit skröltormsins. Af Facebook

Er eig­andi hans hafði næst­um því stigið ofan á skröltorm í morg­un­göngu skammt frá heim­ili þeirra í Arizona vissi hund­ur­inn Todd ná­kvæm­lega hvað hann þyrfti að gera. Hann stökk fyr­ir fram­an eig­and­ann, Paulu Godw­in, og kom þannig í veg fyr­ir að skröltorm­ur­inn biti hana í fót­inn. Þess í stað sökkti snák­ur­inn eitruðum tönn­um sín­um í trýnið á Todd. 

Todd er aðeins sex mánaða en viðbrögð hans hafa orðið til þess að nú er hann kallaður hetja, seg­ir í frétt Tel­egraph um málið. Godw­in sagði frá hetju­dáðinni á Face­book og birti mynd af bólgnu trýni Todds.

„Er við geng­um niður hæðina steig ég næst­um því ofan á skröltorm. En hetj­an mín hann Todd bjargaði mér,“ skrifaði hún.

Todd ýlfraði mikið af kvöl­um eft­ir bitið. Godw­in greip hann í fangið og fór þegar með hann á næsta dýra­spítala þar sem hon­um voru gef­in mót­efni. Hann fékk svo að fara heim hálf­um sól­ar­hring síðar.

mbl.is