Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti, sem hlaut endurkjör í embætti í lok síðasta mánaðar, skipaði í dag tengdason sinn í embætti fjármálaráðherra.
Erdogan sór embættiseið í dag og hóf þar með nýtt fimm ára kjörtímabil sem forseti Tyrklands. Hann kynnti nýja ríkisstjórn landsins en fjármálaráðherrann er Berat Albayrak, tengdasonur Erdogan.
Völd Erdogan hafa aukist á valdastóli og völd þingsins minnkað á sama tíma. AFP-fréttastofan greinir frá því að hann sé valdamesti leiðtogi Tyrklands í áratugi.
Stjórnarskrárbreytingar sem voru samþykktar á síðasta ári gera Erdogan kleift að ráða háttsetta embættismenn, þar á meðal ráðherra og varaforseta, milliliðalaust, hafa afskipti af réttarkerfinu og lýsa yfir neyðarástandi. Þá má forsetinn bjóða sig fram til síns þriðja kjörtímabils samkvæmt breytingunum og gæti því verið forseti Tyrklands til 2028.