„Það er skýr stefna fyrirtækisins að selja ekki lyf sem þessi beint til fangelsismálastofnana og notkun lyfsins er því gegn okkar vilja,“ segir Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri hjá lyfjafyrirtækinu Alvogen.
Til stendur að taka fangann Scott Dozier af lífi síðar í dag í Nevada-ríki í Bandaríkjunum með lyfjablöndu sem aldrei hefur verið notuð áður við aftökur. Forsvarsmenn Alvogen heyrðu fyrst af fyrirhugaðri notkun lyfs, sem fyrirtækið framleiðir, við aftöku, í fjölmiðlum.
„Fyrirtækjamenning Alvogen og öll þróun og markaðssetning lyfja fyrirtækisins hefur það markmið að auka lífsgæði fólks um allan heim og það eru því mikil vonbrigði að yfirvöld í Nevada fyrirhugi að nota lyf fyrirtækisins með ólögmætum hætti,“ segir Halldór.
Höfuðstöðvar Alvogen eru á Íslandi en fyrirtækið er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki með starfsemi í 35 löndum. Fyrirtækið sérhæfir sig í þróun og framleiðslu samheitalyfja, lausasölulyfja og líftæknilyfja.
Alvogen hefur höfðað mál gegn Nevada-ríki og farið fram á að lögbann verði sett á notkun lyfsins strax og að Nevada skili lyfinu inn. Lögfræðingar Alvogen segja að Nevada-ríki hafi útvegað sér lyf framleidd af Alvogen með ólögmætum hætti og á fölskum forsendum. Lögbannsbeiðnin verður tekin fyrir klukkan fjögur að íslenskum tíma í dag.
Málið er höfðað gegn fangelsismálastofnun Nevada, (Nevada Department of Corrections), framkvæmdastjóra stofnunarinnar, James Dzurenda, yfirmanni lyfjamála, Ihsan Azzam, sem og lækninum sem á að sprauta Dozier með lyfjablöndunni við aftökuna í kvöld.